„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra skrifuðu rétt í þessu undir viljayfirlýsingu og samkomulag til að tryggja fjármögnun 80 milljarða samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu á þessu hausti. Þar með er óvissu eytt um borgarlínu og framkvæmdir hefjast 2020. Þetta eru merkilega tímamót og kaflaskil í samskiptum ríkisins og svetarfélaganna á svæðinu.“
Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á Facebook síðu sinni, og tengir við færsluna undirritað samkomulag forsvarsmanna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Í yfirlýsingunni er lýst yfir vilja til að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður þeirra viðræðna eiga að liggja fyrir í síðasta lagi 15. nóvember næstkomandi, en samkvæmt samgönguáætlun sem nú hefur verið kynnt, verður meginþunginn í uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu eftir 2023.
Samtals er gert ráð fyrir að 13,5 milljarðar komi til framkvæmda við nýjar samgöngubætur á árunum 2019 til 2021. Á árunum 2022 til 2023 koma 7,9 milljarðar til nýrra framkvæmda og 14,5 milljarðar eru áætlaðir árlega frá 2024 til 2033.
Þessi samgönguáætlun er liður í stórsókn ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu samgöngumannvirkja, en Sigurður Ingi Jóhannsson hefur sagt, að mikil þörf sé á því að stórefla samgöngur vítt og breitt um landið, bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.
Samkomulagið á höfuðborgarsvæðinu eru liður í áætluninni.
„Í viljayfirlýsingunni kemur fram að undirritaðir aðilar eru sammála um að stefna skuli að sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum með fjölbreyttum ferðamátum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn taki tillit til markmiða í samgönguáætlun 2018-2033, aðgerðaráætlun í loftslagsmálum 2018-2030, þ.m.t. orkuskiptum, svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins (Höfuðborgarsvæðið 2040) og áætlun um loftgæði á Íslandi 2018-2029.
Hópnum er ætlað að skila tillögum sem eyða muni flöskuhálsum, til þess að bæta umferðarflæði og efla umferðaröryggi. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að framkvæmdir við hágæða almenningssamgöngur hefjist 2020. Þá verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir, m.a. með nýrri gjaldtöku ríkis og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum.
Niðurstöður hópsins verða svo lagðar fyrir ríkisstjórn og bæjarstjórnir og borgarstjórnir til staðfestingar en þær tillögur sem kalla á breytingu á samgönguáætlun munu fara til Alþingis,“ segir í umfjöllun um samkomulagið, á vef Reykjavíkurborgar.