Söluverð nýrra íbúða í Reykjavík á fyrstu sjö mánuðum ársins 2018 var 32 prósent hærra en verð á fermetra á öðrum íbúðum. Meðalverð nýju íbúðanna á fermetra var 556 þúsund krónur á sama tíma og meðalfermetraverðið í borginni var 445 þúsund krónur.
Að meðaltali kostaði ný íbúð sem byggð var í Reykjavík 51 milljón króna á tímabilinu en meðaltalsverð annarra íbúða var 46 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá hagdeild Íbúðalánasjóðs.
Þar segir enn fremur að hagdeildin telji margt benda til þess að sérstakur skortur sé á minni og hagkvæmum íbúðum á verði sem almenningur ræður við. „Minni íbúðir í nýbyggingum eru skemur í sölu og líklegri til að seljast á eða yfir ásettu verði en stærri íbúðir í nýbyggingum. Þrátt fyrir þessa eftirspurn eftir litlum íbúðum er ljóst að fáar af þeim nýbyggingum sem komið hafa á markaðinn að undanförnu henta þeim sem hafa lítið eigið fé til íbúðarkaupa. Aðeins fimm prósent nýbygginga á landsvísu hafa verið auglýst á undir 30 milljónum króna það sem af er ári og aðeins tvö prósent þeirra hafa verið auglýst á undir 25 milljónum.“
Ljóst er þó að nýbyggingar eru farnar að hafa umtalsverð áhrif á húsnæðismarkaðinn. frá áramótum og út júlímánuði voru 14 prósent allra íbúðaviðskipta á almennum markaði vegna nýbyggingu. Það er ekki langt frá því hlutfalli sem var árið 2007, þegar síðasta efnahagsuppsveifla sem Ísland gekk í gegnum náði hámarki sínu. Þá var hlutfall nýbygginga í íbúðaviðskiptum 18 prósent. Til samanburðar var hlutfall nýbygginga í slíkum viðskiptum þrjú prósent árið 2010.
Í greiningunni kemur fram að hlutfall nýbygginga í íbúðaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu er hæst í Mosfellsbæ, þar sem 56 prósent allra slíkra voru vegna kaupa og sölu á nýbyggingum. Hlutfallið var 45 prósent í Garðabæ en sex prósent í Reykjavík.