Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sent yfirlýsingu frá ráðuneytinu þar sem hún sér sig knúna til að leiðrétta fullyrðingar í grein þriggja lækna sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem þeir meðal annars halda því fram að ráðherra ætli sér að færa þjónustu sérgreinalækna að miklu leyti eða alfarið inn á göngudeildir sjúkrahúsa.
Í greininni, sem ber nafnið „Það sem ekki er sagt“, segja læknarnir, Högni Óskarsson, geðlæknir og stjórnendaþjálfari, Sigurður Árnason, lyflæknir, heilsugæslulæknir og krabbameinslæknir, og Sigurður Guðmundsson, læknir við Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, segja hugmynd ráðherrans, sem sé róttæk, þá að færa einn hinna stóru þátta, „mögulega þann skilvirkasta, þ.e. þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga“, inn á göngudeildirnar eða heilsugæsluna.
Læknarnir þrír segja þessa hugsun einungis byggða á pólitískri kreddu, göngudeildirnar hafi hvorki húsakost né mannskap til að taka við þó ekki væri nema broti af þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Um sé að ræða mjög sérhæfða læknisþjónustu sem heilsugæslan að jafnaði fáist ekki við og geti ekki fengist við um fyrirsjáanlega framtíð enda hafi hún ekki sérhæft starfslið til að sinna slíkri vinnu. „Það stefnir því í versta kostinn; að kostnaður sérfræðiþjónustunnar flytjist frá sjúkratryggingum yfir á sjúklinga. Og enn einu sinni bitnar þetta á einstaklingum og fjölskyldum sem minnstar hafa tekjurnar. Sjúklingar vilja það ekki, læknar vilja það ekki, þjóðin vill það ekki. Væri því ekki ráð að anda djúpt og stunda samningaviðræður sem tryggja að heilbrigðisþjónustunni í landinu sé ekki stefnt í voða um áramót. Heilbrigðisráðherra, vaknaðu strax. Annars fellur þú á tíma,“ segja læknarnir.
Í svari sínu segir ráðuneytið að orðið hafi veruleg aukning á stofurekstri sjálfstætt starfandi sérgreinalækna síðustu ár og starfsemi þeirra færst að sama skapi út af Landspítalanum. Þessi þróun hafi átt sér stað, án tillit til þess hvort um sé að ræða sérgreinar sem eðlis síns vegna ættu frekar að vera innan sjúkrahússins eða ekki. Þá hafi Ríkisendurskoðun bent á hvernig fjármunir hafa á liðnum áratug færst frá opinberu heilbrigðisþjónustunni inn í einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins.
„Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lýst þeirri stefnu ítrekað að hún hyggist styrkja opinbera heilbrigðiskerfið og vinna að þeirri stefnu sem byggist á almennri sátt í samfélaginu og felst meðal annars í því að efla heilsugæsluna til muna með þverfaglegri mönnun heilbrigðisstétta og vinna að því að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Það hefur hins vegar komið skýrt fram af hálfu ráðherra að það sé alls ekki stefna eða markmið að fyrirbyggja starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks á stofum með greiðsluþátttöku hins opinbera.“
Haft er eftir Svandísi að það sem máli skipti og hafi margsinnis verið bent á, bæði af hálfu erlendra ráðgjafafyrirtækja, Ríkisendurskoðunar og annarra, er að ríkið axli ábyrgð sína sem kaupandi þjónustu fyrir almannafé. „Fjármunir til heilbrigðisþjónustu eru ekki ótakmarkaðir, ekki fremur en til annarra verkefna. Þess vegna þarf að skilgreina hvaða þjónustu vantar og í hvaða mæli og sjá til þess að þeir sem á þjónustunni þurfa að halda geti fengið hana. Það er óvenjulegt við rekstur íslenska heilbrigðiskerfisins að ekki skuli vera fyrir hendi þjónustustýring varðandi starfsemi sérgreinalækna og á það hefur verði bent margsinnis. Þessu þarf að breyta. Það er hins vegar alröng fullyrðing sem fram kemur í grein læknanna þriggja, þeirra Högna Óskarssonar, Sigurðar Árnasonar og Sigurðar Guðmundssonar, að ég ætli að færa þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna „að miklu leyti eða alfarið inn á göngudeildar sjúkrahúsanna“ og mér finnst það áhyggjuefni að rangfærslur sem þessar séu ítrekað settar fram í umræðunni,“ segir Svandís.