Lífeyrissjóður bankamanna telur sjóðfélaga hafa orðið af 5,6 milljörðum króna, vegna uppgjörs á skuldbindingum sjóðsins árið 1997, en sjóðurinn hefur stefnt Seðlabanka Íslands, Valitor, Reiknistofu bankanna, Landsbankanum, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og íslenska ríkinu til þess að reyna að fá þessu breytt.
Tjónið sem sjóðurinn telur að þurfi að leiðrétta lendir ekki síst á konum úr stétt bankamanna sem eru með 200 þúsund krónur á mánuði í eftirlaunaréttindi, að því er fram kemur í stefnu.
Í lok árs í fyrra voru lífeyrisþegar þeirrar deildar lífeyrissjóðsins (Hlutfallsdeildar) sem tjónið sem um er deilt lenti á, samtals 999, þar af 691 kona. Greiðandi sjóðfélagar voru 155 í fyrra og þar af 128 konur. Meðaltal greiðandi sjóðfélaga er um 60 ár en meðalaldur allra 74 ár.
Æðstu starfsmenn í ríkisbönkunum á þeim tíma sem uppgjörið var gert, í stöðu bankastjóra og aðstoðarbankastjóra, héldu réttindum sínum og fengu sérstaka staðfestingu á því bréflega. Öðruvísi var farið með þessa kvennastétt, sem situr nú eftir með sárt ennið.
Tryggvi Tryggvason, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir að það sé mikilvægt að þetta tjón verði bætt gagnvart sjóðfélögum, en hann vonast til þess að þeir sem stefnan beinist að séu tilbúnir að viðurkenna að það þurfi að bæta þetta tjón. Stefnan fyrir dómstólum sé í raun lokatilraun til að fá tjónið bætt, þar sem stefndu hafi ekki tekið vel í það að ljúka málinu.
Forsaga þessa máls, sem tekið verður fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. október næstkomandi, er sú að árið 1997, í tengslum við fyrirhugaða einkavæðingu Landsbankans, var ábyrgð bankans og annarra aðildarfélaga á skuldbindingum Eftirlaunasjóðs Landsbankans og Seðlabankans (nú Lífeyrissjóðs bankamanna) aflétt með sérstöku samkomulagi.
Með samkomulaginu var skuldbindingin gerð upp miðað við tilteknar tryggingafræðilegar forsendur og var yfirlýst markmið að þáverandi sjóðfélagar yrðu jafnsettir og fyrir breytinguna.
Í málinu hefur þessi forsendubrestur, það er að réttindi sjóðfélaga hafa ekki haldist eins og að var stefnt, verið staðfestur með matsgerð dómskvadds matsmanns, tryggingarstærðfræðings, og var hann í matsgerðinni talinn nema um 5,4 milljörðum króna í lok árs 2015, og tekur aðalkrafan í málinu mið af þeirri tölu, að viðbættum verðbótum.
Fyrir sjóðfélagana sem hafa orðið fyrir þessu tjóni sem sjóðurinn vill nú fá bætt munar mest um lægri lífeyristökualdur og nýtingu á svokallaðri 95 ára reglu.
Þannig hafa skuldbindingar deildarinnar reynst mun hærri en ráð var fyrir gert og grundvöllur samkomulagsins raskast til tjóns fyrir sjóðfélaga, jafnvel þá markmið um góða eignaávöxtun hafi náðst.
Rréttindi voru skert í Hlutfallsdeild um tæp 10 prósent á árinu 2014 og er halli á deildinni nú rúm 6 prósent til viðbótar og útlit fyrir frekari skerðingar að óbreyttu.
Tryggvi segir, að vonandi verði þetta mál nú til þess að stefndu hlusti á kröfu sjóðfélaga og taki tillit til þeirra.