Kostnaður Alþingi vegna farsíma og nettenginga þingmanna, starfsliðs þingflokka, formanna flokka og starfsliðs skrifstofu Alþingis var samtals 14,1 milljónir króna í fyrra. Kostnaðurinn hefur farið hríðlækkandi á undanförnum árum en hann var 28,3 milljónir króna árið 2013. Því var kostnaðurinn í fyrra helmingur af því sem hann var fimm árum áður.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, um málið.
Þingmenn geta valið við hvaða fjarskiptafyrirtæki þeir skipta þegar kemur að farsímaþjónustu og nettengingu. Skrifstofa Alþingis leitar því ekki tilboða vegna þeirra. Þá eru starfsmenn þingflokka á launum hjá flokkunum sjálfum og því er kostnaður þeirra ekki greiddur af skrifstofunni.
Hún velur hins vegar einn aðila til að þjónusta starfsfólks þingsins, ritara og aðstoðarmenn formanna þingflokka sem eru í stjórnarandstöðu og samkvæmt svarinu var síðast leitað tilboða vegna þeirra á árinu 2013 vegna farsíma starfsmanna og var það gert hjá tveimur símafyrirtækjum, Símanum og Vodafone. „Síminn var valinn fyrir starfsfólk eftir verðkönnun[...]Forsendur fyrir valinu voru bæði verð og þjónustan sem fyrirtækið bauð,“ segir í svari forseta Alþingis. Þar er einnig bent á að frá því að tilboðanna var leitað hafi verð lækkað og þjónustan sem sé innifalin aukist.
Síminn fær því stærstan hluta þess fjár sem skrifstofa Alþingis greiðir vegna farsíma- og netttengingakostnaðar. Hlutur fyrirtækisins í þeim kostnað hefur þó minnkað. Á árinu 2013 fékk það fyrirtæki aðra hverja krónu sem greidd var vegna slíks. Í fyrra fékk það 39 prósent alls greidds kostnaðar. Fjárhæðirnar sem greiddar hafa verið til Símans hafa lækkað jafnt og þétt ár frá ári, samhliða því að kostnaður fyrir farsímaþjónustu og nettengingar hefur almennt lækkað. Árið 2013 fékk Síminn greiddar 13,6 milljónir króna frá skrifstofu Alþingis en sú upphæð var 5,5 milljónir króna í fyrra. Önnur fjarskiptafyrirtæki fengu umtalsvert lægri greiðslur.
Í svari forseta Alþingis kemur fram að reikningar frá Símanum, Vodafone (sem nú heitir Sýn) og Nova séu greiddir beint. „Einungis er tekið við reikningum beint frá þeim símafyrirtækjum sem skipta reikningunum upp þannig að Alþingi fær einungis þann hluta sem samþykkt er að greiða hér og þingmaður fær þann hluta sem hann á að greiða sjálfur. Að öðrum kosti þarf þingmaður að greiða allan reikninginn sjálfur og fá hann endurgreiddan hjá Alþingi að þeim hluta sem reglur mæla fyrir um.“