„Á sama tíma og sjómannaforystan telur hag sjómanna hafa tekið stakkaskiptum eftir síðustu samninga með fríu fæði og vinnufötum sem þeir sjálfir og hjálparlaust, að eigin mati, komu inn í okkar kjör líður mér eins og þeim finnist þeir getað tekið sér pásu frá þeim málum sem okkur varða - félaga þessara stéttarfélaga.“ Þetta segir Heiðveig María Einarsdóttir sjómaður og viðskiptalögfræðingur í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í morgun.
Hún gagnrýnir þar harðlega nýtt frumvarp um breytingar á veiðigjöldum sem kynnt var í síðustu viku og af þeim sökum hefur hún nú tekið saman athugasemdir og umsögn um frumvarpið og komið þeim á framfæri við Atvinnuveganefnd Alþingis sem fer með málið.
Heiðveig fer hörðum orðum yfir það sem kemur fram í frumvarpinu varðandi jafnréttismál. Hún segir í umsögn sinni að frumvarpshöfundar slái upp jafnréttisskikkjunni og í raun leggi fram einungis ein rök fyrir því að stofn til útreiknings veiðigjalds skuli ekki byggður á fiskvinnslu.
Hún vísar í kafla úr frumvarpinu þar sem fram kemur að ástæða sé til að víkja sérstaklega að jafnréttismálum. „Vinnumarkaðurinn hér á landi er kynjaskiptur eins og víða í hinum vestræna heimi. Konur eru að miklu leyti launþegar í ýmis konar þjónustugreinum. Fram hefur komið það sjónarmið að á landsbyggðinni séu víða ríkjandi karllæg viðmið og gildi þar sem störf sem karlmenn gegna séu meira metin, svo sem í frumatvinnugreinunum, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Störf í landvinnslu hafa jafnan verið að meirihluta á hendi kvenna. Þá má geta þess að konur hafa á síðustu árum verið mun sýnilegri í sjávarútvegi en áður. Nefna má að með frumvarpi þessu er ekki lagt til að vinnsla á sjávarafla verði hluti af reiknistofni veiðigjalds sem mundi fremur, samkvæmt þessu, koma við störf kvenna en karla,“ segir í frumvarpinu.
Heiðveig telur að með þessari framsetningu séu frumvarpshöfundar að varpa fram þeirri spurningu að veiðigjaldið komi til með að verða greitt af þeim sem við greinina starfa frekar en þeim er hagnast af henni og stingi það algjörlega í stúf við markmið, umfjöllun og „loforð“ þar um.
„Að sama skapi má lesa út úr þessari málsgrein að frumvarpshöfundar telji störf kvenna mikilvægari en störf karla, þá sjómanna sem eru að meirihluta karlmenn, þá að því gefnu að frumvarpshöfundar séu samkvæmir sjálfum sér í skrifum þessum. Að fórna og ógna afkomu sjómanna og fjölskyldna þeirra og þá tekjum ríkissjóðs með röklausri jafnréttisskikkju er því algjör tímaskekkja og í besta falli algjörlega á skjön við allt það sem frumvarp þetta á að byggja á,“ segir hún í umsögn sinni.
Heiðveig segir jafnframt í samtali við Kjarnann þetta vera fáránlegt framlag inn í frumvarpið, þetta sé mismunun og yfirklór.
Illa unnið frumvarp
Heiðveig telur frumvarpið illa unnið að miklu leyti. Hún bendir á að í frumvarpinu sé margt sagt kannað og að ekki hafi gefist tími til að skoða ýmsa hluti. Margt sé einnig látið liggja milli hluta. Frumvarpið sé langt í frá boðlegt sem grunnur að einhvers konar sátt um pólitískt hitamál. Heiðveig segir að miðað við gagnrýnina sem kom fram á síðasta frumvarp séu þetta vonbrigði.
„Ég hlustaði á umræðurnar á Alþingi og maður getur ekki sleppt því að spyrja sig hverra hagsmuna sé verið að gæta þarna,“ segir hún og bætir því að útfærslurnar komi til með að koma niður á sjómönnunum sjálfum, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hún gagnrýnir jafnframt forystu sjómanna en hún er sjálf í Sjómannafélagi Íslands. „Enginn segir neitt frá forystunni,“ segir hún og telur hún enn fremur að umsagnir eigi að koma frá stéttarfélögunum sem eigi að leita til viðeigandi fagaðila eftir viðfangsefni hverju sinni ef þurfa þykir.
Veiðigjöldin klipin af hlut sjómanna
Í stöðuuppfærslu sinni segist hún hafa bent á hvernig sjómenn fengu einir stétta ekki aukið mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóði, gagnrýnt framgöngu forystunnar varðandi myndavélaeftirlit og nú síðast varðandi frumvarp um breytingar á veiðigjaldinu. „Miðað við mína reynslu af samskiptum við okkar verkalýðsforystu gerði ég ekki ráð fyrir að okkar hagsmuna væri gætt hér frekar en fyrri daginn þegar nýtt veiðigjaldafrumvarp var kynnt nú í síðustu viku.
Við sjómenn ræðum það okkar á milli að líklega verði veiðigjöldin að einhverju leyti klipin af okkar hlut,“ segir hún og af þeirri ástæðu tók hún saman athugasemdir og umsögn um frumvarpið og kom þeim á framfæri við Atvinnuveganefnd Alþingis sem fer með málið.