Á sjöunda tug karlmanna hefur á fáum vikum farið í gegnum áhættumat á Landspítala og fengið forvarnarlyf gegn HIV. Þetta kemur fram í viðtali við Bryndísi Sigurðardóttur smitsjúkdómalækni sem birtist í októberútgáfu Læknablaðsins.
Bryndís telur að karlmennirnir verði allt að 80 talsins innan skamms. Í viðtalinu kemur fram að yfirvöld hafi nú í sumar hafið að greiða að fullu fyrir samheitalyf Truvada til að fyrirbyggja ný HIV-smit meðal karla sem stunda kynlíf sín á milli. Einungis örfáir hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir lyfjunum.
Rétt tæplega 30 einstaklingar hafa bæst í hóp HIV-smitaðra það sem af er ári og þykir það mikið. HIV-smitum fækkar á heimsvísu á sama tíma og þeim fjölgar hjá karlmönnum sem sofa hjá öðrum körlum. Bryndís segir að HIV sé þeim raunveruleg ógn.
Í svari Embættis landlæknis við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að í fyrra hafi 28 einstaklingar verið skráðir með HIV sem ekki hafði verið skráð hérlendis fyrr. Margir þeirra voru erlendir ríkisborgarar sem voru að flytja til landsins, ýmist áður þekkt smit eða óþekkt.
Eftirspurn meiri en reiknað var með
Bryndís segir að eftirspurn eftir forvarnarlyfinu sé nokkru meiri en reiknað hafi verið með en gert var ráð fyrir 30 til 50 manns. „Við ráðfærðum okkur við HIV-samtökin sem töldu líklegt að talan yrði um 70. Nú höfum við skimað 64 og símtölum, sem voru mörg helstu sumarleyfismánuðina, fækkar,“ segir hún.
Hún segir jafnframt að í ljós komi hverjir haldi áfram lyfjameðferðinni en sumum henti ekki að taka lyf á hverjum degi. „Sumir fara í fast samband og þetta er ekki ætlað fyrir þá. Ekki einu sinni fyrir þann sem er með HIV-smituðum sem er á lyfjum og mælist með 0 í veirumagni.“
Ríkið greiðir um 66.000 kr fyrir hvern mánaðarskammt af samheitalyfi Truvada sem inniheldur emtricitabine/tenofovir. Miðað við þær forsendur kostar þetta hátt í 800.000 krónum á ári fyrir hvern og einn en mönnum er ekki ætlað að vera á lyfinu árum saman, segir í viðtalinu.
„Þetta er hagstæðara en að vera með einstakling, allt frá tvítugu, í um 200.000 króna lyfjameðferð á mánuði alla ævi vegna HIV. Mín tilfinning er sú að ef ég kem í veg fyrir eitt til tvö smit á ári sé tilgangi okkar náð. Ég er mjög hlynnt lyfi í forvarnarskyni gegn HIV,“ segir Bryndís í samtali við Læknablaðið en hún væntir þess að lyfið verði ódýrara með fleiri útboðum. „Nú þegar hafa tveir ungir menn sem hugðust fara þessa leið greinst með HIV-smit. HIV er raunveruleg ógn við þennan hóp.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á vefsíðu Læknablaðsins.