Stjórn Primera Air vinnur nú að lausn mála, vegna falls félagsins, með flugmálastjórnum í Danmörku og Lettlandi, helstu starfsssvæðum fyrirtækisins, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá stjórn.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá segir stjórn Primera það vera mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að tryggja fjárhag félagsins. Því var ekkert annað að gera en að óska eftir gjaldþrotaskiptum.
Andri Már Ingólfsson er forstjóri og aðaleigandi félagsins, en helsta starfssvæði þess er Norðurlönd og Eystrasaltslönd. Velta félagsins var um 23 milljarðar í fyrra.
Yfirlýsing frá stjórn félagsins, fer hér í heild að neðan:
„Frá og með morgundeginum 2.október 2018, hættir Primera Air starfsemi og fer fram á greiðslustöðvun. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir starfsfólk og viðskiptavini félagsins eftir árangursríkan rekstur í 14 ár. Ákvörðunin er tekin í ljósi þungbærra áfalla á síðasta ári þar sem félagið missti m.a. flugvél úr flota sínum vegna tæringar, en það hafði í för með sér viðbótarkostnað upp á 1,5 milljarða króna og jafnframt mikilla seinkana á afhendingu flugvéla frá Airbus á þessu ári. Þær tafir hafa kostað Primera Air um 2 milljarða á árinu 2018. Slík áföll er erfitt að standast í því rekstrarumhverfi sem ríkir á þessum markaði.
Verulega hlutafjáraukningu hefði þurft til að mæta því tapi sem þegar hefur orðið sem og að takast á við þá uppbyggingu sem unnið var að, en á næsta ári átti félagið t.d. að taka á móti 10 nýju flugvélum frá Boeing.
Stjórn Primera Air tók þá ákvörðun að hætta rekstri á þessum tímapunkti með áðurnefnt í huga, en jafnframt var horft til síhækkandi olíuverðs, lækkandi farmiðaverðs á öllum mörkuðum, sem og þess að lágmarka óþægindi viðskiptavina félagsins. Stjórn félagsins telur einnig að það væri ábyrgðarhluti að fara í svo stóra fjárfestingu sem kaup á 10 nýjum Boeing flugvélum væri, án þess að fulltryggja slíkt til enda, og til að koma í veg fyrir tjón birgja og leigusala. Að lenda í svo stórum áföllum og ekki geta tryggt áframhaldandi rekstur, eru óendanleg vonbrigði öllum sem að félaginu standa. Primera Air þakkar starfsfólki sínu ótrúleg störf í gegnum árin, og viðskiptavinum sínum traustið og viðskiptin við félagið í gegnum árin.
Unnið verður með flugmálastjórnum Danmerkur og Lettlands í að leysa úr málum þeirra farþega sem eiga bókuð flug. Verða allar upplýsingar um það birtar á heimasíðu félagsins. Öll flug fyrir íslenskar ferðaskrifstofur hafa verið flutt til annarra flugfélaga, og munu ferðaskrifstofur upplýsa farþega sína um slíkt, en engin röskun verður á flugi ferðaskrifstofa frá Íslandi. Heimsferðir hafa flutt alla samninga sína til Travelservice, og munu aðstoða farþega Primera Air til tryggja að allir komist á áfangastað,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Primera Air.