Vegna ófyrirséðra atburða gerir Arion banki hf. ráð fyrir að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem mun hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankans á þriðja ársfjórðungi 2018.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Áhrifin munu nema um 1,3 til 1,8 milljarði króna, að teknu tilliti til skatta, og mun hlutfall eiginfjárþáttar 1 lækka um um það bil 0,2 prósentustig vegna þessa. Fyrirgreiðslurnar tengjast félagi sem hefur verið í viðskiptum við bankann og fyrirrennara hans um árabil, segir í tilkynningunni.
Í samtali við mbl.is segist Haraldur Guðni Eiðsson hjá samskiptasviði Arion banka ekki geta staðfest hvort um sé að ræða flugfélagið Primera Air, sem hefur óskað eftir greiðslustöðvun. Í fréttinni kemur jafnframt fram að á vefsíðunni Turisti.is segi að félagið hafi átt í viðskiptum við Arion banka.
Samkvæmt tilkynningu bankans mun fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, til að mynda varðandi þróun eiginfjár, haldast óbreytt. Að mati bankans er um einskiptisatburð að ræða sem hafi ekki áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað.
Afkoma bankans fyrir þriðja ársfjórðung verður birt 31. október næstkomandi.