Ursus ehf., félag í eigu Heiðars Guðjónssonar, bætti við sig hlutum í Sýn hf. í dag. Alls keypti félagið 3.250.000 hluti á genginu 61,5 krónur á hlut og greiddi því fyrir um 200 milljónir króna. Ursus var þegar stærsti einstaklingsfjárfestirinn í hluthafahópi Sýnar og Heiðar er stjórnarformaður félagsins. Félagið á nú rúmlega 25,1 milljón hluti í félaginu eða um 8,5 prósent.
Fyrr í dag var greint frá því að 365 miðlar hefðu selt 10,92 prósent hlut sinn í Sýn sem félagið fékk þegar það seldi ljósvaka- og fjarskiptastarfsemi sína til Sýnar í lok síðasta árs.
Söluverðið var um tveir milljarðar króna. Eigandi félagsins er Ingibjörg Pálmadóttir og félaginu er einnig stýrt af eiginmanni hennar, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
Þeir miðlar sem seldi voru frá 365 miðlum í fyrra voru Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, útvarpsrekstur fyrirtækisins (t.d. Bylgjan, X-ið og FM957) og fréttavefurinn Vísir.is. Fréttastofa 365 fylgdi með í kaupunum, en hún er ein stærsta fréttastofa landsins og sú eina sem heldur úti daglegum sjónvarpsfréttatíma utan fréttastofu RÚV.
Stærsti eigandi Sýnar er breskur vogunarsjóður, Landsdowne Partners, með 12,18 prósent hlut. Þar á eftir kemur Gildi lífeyrissjóður með 11,91 prósent og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 10,87 prósent. Ursus er nú fjórði stærsti eigandinn með áðurnefndan 8,5 prósent hlut.