Íslendingar þurfa að finna lausnir og hugmyndir að því hvernig sé hægt að gera velferðarkerfin okkar skilvirkari, notendavænni og ódýrari svo það sé gerlegt fyrir Íslendinga að viðhalda þeim án þess að öll aukin verðmætasköpun fari í að greiða fyrir þau. Þar er nýsköpun algjört lykilatriði.
Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 sem frumsýndur var í gær. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Þórdís Kolbrún ræddi þar meðal annars um hvernig nýsköpun sé nauðsynleg innan opinbera kerfisins. „Við erum í dag fimm manns að vinna á hvern eldri borgara, svona um það bil. Innan ekki svo langs tíma þá erum við komin niður í kannski tvo. Á sama tíma erum við með heilbrigðiskerfi sem ríkið pólitísk sátt um að eigi að vera opið fyrir alla. Við erum búin að segja að það sé óháð efnahag og öðru, þú átt aðgang hér að heilbrigðiskerfinu. Þetta heilbrigðiskerfi okkar verður bara dýrara og dýrara.“
Ástæður þess eru meðal annars að lyf verða sífellt dýrari, sjúkdómar greinast fyrr, og fólk lifir lengur. Þórdís Kolbrún vill fjárfesta í fólki til að reyna að leysa þessar áskoranir með opinbera kerfinu. Ríkið þurfi á aðstoð að halda til að viðhalda velferðarkerfinu. „Þá þurfum við að fá fólk þarna úti til að koma með allar þessar lausnir og hugmyndir að því hvernig við getum gert þetta kerfi skilvirkara, betra fyrir fólk sem þarf að nota það og ódýrara þannig að það sé okkur gerlegt, að það fari ekki bara öll aukin verðmætasköpun sem við erum að reyna að búa til, að það fari ekki bara allt inn í velferðarkerfið sem okkur er mjög umhugað um að halda. Í þessu er nýsköpun algjört lykilatriði og mér finnst að við eigum að far að leggja miklu meiri áherslu á það.“