Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í ræðu sinni á flokksráðsfundi Vinstri grænna í dag, að sá leiðarvísir sem væri bestur fyrir Vinstri græn, í pólitísku litrófi, væri að fylgja eigin sannfæringu og vera sjálfum sér trúr.
Hún sagði ríkisstjórn hennar hafa lagt áherslu á mörg af helstu stefnumálum Vinstri grænna. Það væri ekki óeðlilegt að kjósendur skiptu um skoðun og þroskuðu sínar hugmyndir um lífið og tilveruna, og að stjórnmálin þróuðust í takt við það.
„Vissulega er það svo að þegar við breytumst þá breytist líka kjósendahópur okkar. Bæði vegna þess að við höfðum að einhverju leyti ekki til sama fólks og áður en líka – og það er mikilvægt að muna – að kjósendur eru fólk eins og við sem breytist, þroskast, skiptir um skoðun. Og þá er eini leiðarvísir okkar að vera sjálfum okkur trú, gildum okkar og hugmyndum. Við erum í langhlaupi, góðir félagar, og við höfum reynst drýgri í því langhlaupi en margir hafa spáð gegnum tíðina. Nýtum tímann í kvöld og á morgun til að nesta okkur fyrir það, það gerum við með því að horfa inn á við – og fram á við,“ sagði Katrín meðal annars, í lok ræðu sinnar.
Í ræðunni kom hún einnig inn á það, að aukinn jöfnuður, í víðum skilningi, væri eitt af höfuðmarkmiðum ríkisstjórnar hennar. Sú áhersla hefði birst í skattabreytingum, menntamálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum og fleiri áherslumálum í ríkisstjórnarsamstarfinu.
Hún nefndi einnig, að sérstaklega þyrfti að huga að málum öryrkja og einnig ungs fólks. „Enn eitt jöfnunarmál er það mikilvæga verkefni að bæta framfærslu öryrkja en í það eru lagðir fjórir milljarðar í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi. Starfað hefur samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði. Þarna verður að horfa til tveggja mikilvægra þátta að mínu viti; að bæta framfærslu þeirra sem eingöngu hafa úr framfærslu almannatrygginga að spila og standa höllustum fæti og hins vegar að draga úr skerðingum á þær viðbótartekjur sem fólk aflar sér og hafa reynst letjandi til allrar þátttöku á vinnumarkaði. Þá er unnið að því í að fara yfir hvernig breytingar á almannatryggingum sem samþykktar voru árið 2016 hvað varðar eldri borgara hafa reynst þeim en markmiðið er að greina þann hóp eldri borgara sem býr við bágust kjör og styðja betur við hann. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir sem snúast um að útrýma fátækt og tryggja að allir búi við mannsæmandi kjör.
Í þessari umræðu má hins vegar ekki gleyma unga fólkinu okkar en margar vísbendingar eru um að þegar við horfum heildstætt á stöðu ólíkra samfélagshópa þá sé unga kynslóðin sá hópur sem við þurfum að sinna sérstaklega. Öll gögn sem við höfum benda til að unga fólkið hafi dregist aftur úr í tekjum og það er þessi hópur sem á í kröggum með að flytja úr foreldrahúsum,“ sagði Katrín í ítarlegri ræðu sinni.