Flugfélagið WOW air hefur ákveðið að hætta að fljúga frá þremur borgum í miðvesturríkjum Bandaríkjanna. WOW hættir að fljúga frá St. Louis í byrjun næsta árs og mun ekki snúa aftur til Cincinnati eða Cleveland næsta sumar. Aðeins eru fimm mánuðir síðan WOW hóf að fljúga frá þessum þremur borgum. Fyrr í þessum mánuði hætti flugfélagið að fljúga til tveggja borga í Evrópu og San Francisco. Þetta kemur fram í bandarískum fjölmiðlum en RÚV greinir fyrst frá hér á landi.
Svo virðist sem ákvörðun WOW um að hætta við ferðir frá St. Louis hafi komið forsvarsmönnum flugvallarins þar í opna skjöldu. „Við erum vonsviknir með þessa ákvörðun því viðbrögð viðskiptavina hafa verið mjög góð,“ segir í yfirlýsingu flugvallarins og vitnað er til í frétt USA Today. WOW ber að bjóða farþegum val um annað flug á áfangastað eða endurgreiðslu á farmiða, segir í frétt RÚV.
Í frétt USA Today er einnig rifjað upp að forsvarsmenn WOW hafi fyrir mánuði tilkynnt að flugfélagið myndi snúa aftur til Cleveland. Haft er eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, að WOW ætli sér að fljúga áfram til Detroit.
USA Today segir að miðað við orð Svanhvítar sé hugsanlegt að fleiri breytingar í farvatninu hjá WOW varðandi Ameríkuflugið. Þegar hún hafi verið spurð um hvort WOW ætli að halda áfram að fljúga til New York og Dallas hafi hún svarað því að engin ákvörðun hefði verið tekin um slíkt.
Í tilkynningu sem WOW air sendi frá sér í byrjun október kemur fram að félagið muni ekki fljúga til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco yfir vetrarmánuðina. Það aflýsti því flugum frá 5. nóvember næstkomandi til byrjun apríl á næsta ári. Ákvörðun var tekin með það að leiðarljósi að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri félagsins, samkvæmt tilkynningunni.
Í gær tilkynnti flugfélagið að það myndi hefja að nýju ferðir til Tel Aviv.