Pétur Þ. Óskarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til að efla ímynd og orðspor Ísland.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.
Hlutverk Íslandsstofu er að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til að greiða fyrir útflutningi vöru og þjónustu, laða til landsins erlenda ferðamenn og fjárfestingu með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál.
Björgólfur Jóhannsson, formaður stjórnar Íslandsstofu, segir ráðningu Pétus fagnaðarefni.„Íslandsstofa stendur á tímamótum en ný lög um starfsemi hennar tóku gildi í september þar sem Íslandsstofu var breytt í sjálfseignarstofnun. Framundan eru umfangsmikil og krefjandi verkefni, ekki síst langtímastefnumótun um markaðssetningu og útflutning á íslenskum vörum, þjónustu og menningu. Stjórn Íslandsstofu stóð frammi fyrir erfiðu vali þar sem hópur einstaklega hæfra einstaklinga gaf kost á sér til að leiða þetta verkefni. Við fögnum því að hafa fengið Pétur Þ. Óskarsson í forystu Íslandsstofu. Yfirgripsmikil reynsla hans og fyrri störf úr utanríkisþjónustunni og atvinnulífinu, jafnt hér á landi sem erlendis, munu nýtast vel við verkefnin framundan. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fráfarandi framkvæmdastjóra, Jóni Ásbergssyni, fyrir hans framúrskarandi starf í þágu íslensks atvinnulífs um árabil,“ segir Björgólfur.
Pétur hefur frá árinu 2015 verið framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group. Áður bar hann m.a. ábyrgð á samskiptamálum Símans, Framtakssjóðs Íslands, Skipta og Íslandsbanka. Hann var viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 2000-2005 þar sem hann var meðal annars annar framkvæmdastjóra Iceland Naturally verkefnisins, samstarfsverkefni íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja um kynningu á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu.
Á undanförnum árum hefur hann setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og samtaka, m.a. Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins. Pétur er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá Fordham-háskóla í New York.
Alls bárust 44 umsóknir um starf framkvæmdastjóra Íslandsstofu og var ráðningarferlið í höndum Capacent.