Landsbankinn hagnaðist um 15,4 milljarða króna á fyrstu 9 mánuðum ársins, en útlánaaukning nam 112,4 milljörðum króna, sem er um 12,1 prósent aukning milli ára. Það er aukning sem er umtalsvert umfram hagvöxt, en spár gera ráð fyrir 3 til 4 prósent hagvexti á þessu ári.
Íslenska ríkið er eigandi bankans að mestu leyti, eða rúmlega 98 prósent. Frá árinu 2013 hefur bankinn greitt 131,7 milljarða króna í arð.
Heildareignir Landsbankans, sem að uppistöðu til eru útlán, jukust umtalsvert milli ára en þær nema nú 1.317 milljörðum króna. Kostnaðarhlutfall bankans var á fyrrnefndu tímabili 45 prósent.
Eigið fé bankans er 235,9 milljarðar og eiginfjárhlutfallið 24,8 prósent. Lágmarkseiginfjárhlutfall Fjármálaeftirlitsins er 20,5 prósent.
Innlán hjá Landsbankanum hafa á þessu ári aukist um meira en 14,5 prósent, eða sem nemur um 87,5 milljörðum króna.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, fagnar rekstrarniðurstöðunni, í tilkynningu. „Á árinu hafa bæði útlán og innlán hjá bankanum aukist umtalsvert og í ágúst síðastliðnum styrktist fjármögnun bankans enn frekar með útgáfu fyrsta víkjandi skuldabréfsins. Þessi útgáfa er mikilvæg varða á leið bankans að yfirlýstu 10% arðsemismarkmiði en jafnframt skiptir miklu máli að árangur af rekstri verði áfram góður. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrstu níu mánuðum ársins er 45% og í krónum talið er kostnaður áþekkur því sem hann var á sama tímabili árið 2017. Við munum áfram vinna að því að auka skilvirkni í rekstri og nýta öll tækifæri til að draga úr kostnaði. Það sem af er ári og sér í lagi á þriðja ársfjórðungi hefur staða á verðbréfamörkuðum verið erfið en fyrir því eru ýmsar ástæður. Landsbankinn er viðskiptavaki fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki og stuðlar þannig að eðlilegri verðmyndum og seljanleika á mörkuðum fyrir íslenska fjárfesta, hvernig sem árar. Á heildina litið er Landsbankinn í sterkri stöðu, með gott eigið fé, vel fjármagnaður og vel í stakk búinn til að takast á við breytingar í umhverfinu,“ segir Lilja Björk.
Rekstrartekjur Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 námu 41,1 milljarði króna samanborið við 41,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,8 milljörðum króna samanborið við 5,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 36% lækkun. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar, segir í tilkynningu.