Greiningarfyrirtækið Stockviews í London verðmetur Marel á tæplega 400 milljarða í nýrri greiningu og mælir með kaupum á bréfum félagsins, sé horft til næstu 12 mánaða.
Markaðsvirði Marel er nú tæplega 260 milljarðar og gengi bréfa félagsins 385, miðað við núverandi stöðu á markaði, en Stockviews metur viðmiðunargengið 588,48, sé miðað við þróun á næsta tólf mánaða, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Marel er langsamlega stærsta félagið í íslensku kauphöllinni.
Stærsti eigandi félagsins er félagið Eyrir Invest með 25,8 prósent. Stærstu eigendur þessu eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson, en hann er jafnframt forstjóri Marel.
Marel hefur vaxið mikið undanfarin misseri.
Efnahagur félagsins er í evrum og nam hagnaðurinn í fyrra 97 milljónum evra, eða sem nemur um 13,3 milljörðum króna.
Eigið fé félagsins nam um mitt þetta ár 536 milljónum evra, eða sem nemur 73,4 milljörðum króna. Eignir félagsins námu á sama tíma tæplega 1,5 milljörðum evra, eða sem nemur um 205,5 milljörðum króna.
Félagið hefur sett sér stefnu um mikinn vöxt næsta áratuginn, eða sem nemur um 12 prósent á ári, bæði með yfirtökum og innri vexti.