Breki Karlsson, nýr formaður Neytendasamtakanna, segir að fjölga verði félagsmönnum og efla neytendarannsóknir. Hann var kosinn formaður samtakanna með 53 prósentum atkvæða í dag en úrslit voru tilkynnt á þingi samtakanna í dag.
„Mínar áherslur verða í fyrsta lagi að efla innra starf. Við þurfum að fjölga félögum, við þurfum að byggja starfið á faglegum nótum, efla neytendarannsóknir. Í öðru lagi þurfum við að efla samstarf við önnur neytendasamtök, bæði hér heima og erlendis. Og í þriðja lagi þurfum við að verða sýnilegri í umræðunni.“ sagði Breki í kvöldfréttum Rúv.
Breki segir að nú sé meðbyr með neytendamálum og fólk að velta þeim fyrir sér. „Enda þurfum við að fara að gera það. Það er ekki spurning um það. Við þurfum að breyta neyslu okkar, til dæmis með tilliti til loftslagsmála. Við þurfum að kalla eftir breytingum þar á.“
„Síðan þurfum við að efla samstarf við önnur neytendasamtök bæði hér heima og erlendis en síðast en ekki síst þurfum við að efla miðlun á því góða starfi sem að Neytendasamtökin hafa staðið fyrir og standa enn fyrir. Það gleyma því margir að það koma inn á borð Neytendasamtakanna yfir níu þúsund mál á hverju einasta ári,“ sagði Breki ennfremur.
Endurreisn Neytendasamtakanna.
Breki segir stöðu neytenda á Íslandi að mörgu leyti ekki vera góða, í viðtali við fréttastofu Stöð 2. Hann segir að ein stærstu neytendamál á Íslandi vera háir húsnæðisvextir en segir Íslendinga borga um 3 til 5 prósent hærri vexti heldur en nágrannaþjóðir okkar. Hann nefnir einnig að efla þurfi fjármálalæsi og vitund neytenda hér á landi.
Hann segir ljóst að mikil vinna sé framundan enda er óhætt að segja að samtökin hafi legið í lamasessi, en samtökin hafa verið án formanns frá því að Ólafur Arnarson sagði af sér formennsku í júlí á síðasta ári. Hann segir kjörið marka endurreisn samtakanna eftir stormasamt tímabil og leggur áherslu á að efla neytendavitund.