Hagnaður samstæðu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2018 nam 1,1 milljarði króna samanborið við 0,1 milljarðs króna tap á sama tímabili 2017.
Fall Primera Air hafði neikvæð áhrif á rekstur bankans, og þurfti hann að færa niður eignir vegna þess.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Arion banka vegna reksturs bankans á þriðja ársfjórðungi. Arion banki er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð.
Afkoman er sögð undir væntingum.
Arðsemi eigin fjár var 2,3 prósent á þriðja ársfjórðungi, sem telst lítil arðsemi í alþjóðlegum samanburði. Neikvæða arðsemi var upp á 0,2% á sama tímabili árið 2017.
Heildareignir námu 1.219,5 milljörðum króna í lok september 2018, samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 199,3 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017. Arion banki greiddi 10 milljarða króna í arð í lok september 2018.
Eiginfjárhlutfall bankans var 21,7% í lok september en var 24,0% í árslok 2017.
Í tilkynningu frá bankanum segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri, að félagið sé nú með dótturfélagið Valitor í söluferli, og unnið sé að því í samstarfi við erlendan fjárfestingabanka. „Valitor heldur áfram að vaxa erlendis en fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum á Norðurlöndum og í Bretlandi fjölbreyttar lausnir á sviði greiðslumiðlunar. Stefnumótun varðandi framtíðareignarhald Valitor er lokið og vinnur bankinn að því að fá til liðs við sig alþjóðlegan fjárfestingarbanka til að aðstoða við sölu félagsins, að hluta eða í heild. Gera má ráð fyrir að ákvörðun um næstu skref verði kynnt á næstunni,“ segir Höskuldur í tilkynningu.
Í tilkynningu bendir Höskuldur einnig á að innan Arion banka hafi verið unnið ötullega að jafnréttismálum, bæði hvað varðar launastefnu og kynjahlutföll í stjórn, og sé staðan nú þanning, að bankinn sé í fremstu röð sambærilegra fyrirtækja á Norðurlöndum. „Á undanförnum árum hefur verið rík áhersla á jafnréttismál innan bankans með góðum árangri. Arion banki varð nýverið fyrsti bankinn og jafnframt eitt stærsta fyrirtækið sem fengið hefur heimild til að nota Jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Arion banki innleiddi fyrst jafnlaunakerfi í starfsemi sína árið 2015 og fékk í kjölfarið Jafnlaunavottun VR. Jafnlaunakerfið er mikilvægt stjórntæki og stuðlar að því að starfsfólki, sem vinnur jafnverðmæt störf, sé ekki mismunað í launum. Við höfum einnig unnið að því að jafna kynjahlutföll í stjórnendahópi bankans. Nú þegar bankinn hefur verið skráður í kauphöllina í Stokkhólmi þá er ánægjulegt að sjá að við erum nokkuð framarlega á þessu sviði miðað við önnur félög í þeirri kauphöll. Á nýjum lista sem gefinn er út af AllBright, sem er sænsk stofnun sem hefur það meginmarkmið að stuðla að auknu jafnrétti í viðskiptalífinu, er Arion banki í 17. sæti af 329 fyrirtækjum, sem eru skráð í kauphöllinni í Stokkhólmi, þegar kemur að jöfnum hlutföllum kynjanna í hópi stjórnenda. Við munum halda áfram á þessari braut með það að markmiði jafna enn frekar stöðu kynjanna innan bankans,“ segir í tilkynningunni.