Ítarlega er fjallað um stöðu efnahagsmála í Evrópu í nýjustu útgáfu Vísbendingar, sem kemur til áskrifenda á morgun, föstudag. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifar um stöðu mála í Evrópu, ekki síst í fjármálakerfinu, en blikur eru nú á lofti, ekki síst í Suður-Evrópu.
„Reynslan hefur leitt í ljós að sameiginlegur markaður með fjármagn, þar sem bankar lána óhikað yfir landamæri, krefst sameiginlegra reglna um uppgjör þrotabúa þar sem kveðið er á um hver bíði tjón af gjaldþroti banka. Æskilegt er að lánardrottnar taki á sig hluta af tjóninu en skuldsett ríki séu ekki þvinguð til þess að bera alla byrði af endurgreiðslu skulda. Greiðslufall ítalskra banka í kjölfar verðfalls á ítölskum ríkisskuldabréfum myndi hafa slæm áhrif fyrir lánabækur franskra og þýskra banka og sjóðir ESB eru ekki nógu stórir til þess að bjarga ríkissjóði Ítalíu. Mun því reyna mjög á það næstu mánuði hvort Evrópski seðlabankinn heldur áfram að halda niðri vöxtum á ríkisbréfum þótt ríksstjórn Ítalíu auki hallarekstur sinn.
Við þessi vandræði bætist aukið fylgi þjóðernissinnaðra flokka til hægri og vinstri sem sjá minni hag í milliríkjasamstarfi, sameiginlegum vinnumarkaði og alþjóðlegum viðskiptum. Þær kynslóðir sem komu svo miklu í verk við að endurreisa Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina og höfðu áður orðið vitni að skelfilegum aleiðingum þjóðernishyggju á fjórða og fimmta tug aldarinnar eru nú að hverfa og nýjar kynslóðir taka við. Vonandi munu þær ekki kveikja sömu elda og brunnu á tuttugustu öldinni,“ segir meðal annars í greint Gylfa.
Hægt er að gerast áskrifandi Vísbendingu hér.