Þrátt fyrir að fjármagnshöft hafi að langmestu leyti verið losuð þá hefur full og endanleg losun þeirra enn ekki farið fram. Eftirstandandi aflandskrónueignir nema um 88 milljörðum króna eða 3,2 prósent af vergri landsframleiðslu. Þegar fjármagnshöft voru sett árið 2008 námu aflandskrónueignir um 40 prósent af vergri landsframleiðslu.
Þetta kemur fram í greinargerð Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta en samkvæmt lögum um gjaldeyrismál ber honum að gera Alþingi grein fyrir framgangi áætlunar um losun takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa og gjaldeyrisviðskiptum á sex mánaða fresti þar til slíkum takmörkunum verður endanlega aflétt.
Jafnframt kemur fram að unnið sé að undirbúningi að losun eftirstandandi aflandskrónueigna en að losun þeirra krefjist lagabreytinga. Auk þess sé unnið að lagabreytingum sem lúta að varanlegu fyrirkomulagi fjárstreymistækis hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka Íslands í tengslum við breytingar sem eru í undirbúningi á lögum um Seðlabankann og kynntar voru þann 11. október síðastliðinn. Enn fremur sé stefnt að heildarendurskoðun laga um gjaldeyrismál.
Bindingarhlutfall fjárstreymistækisins lækkar
Þann 2. nóvember síðastliðinn voru birtar á vef Stjórnartíðinda reglur Seðlabanka Íslands um breytingar á reglum bankans um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Reglurnar tóku gildi þá þegar en breytingin felur í sér lækkun bindingarhlutfalls fjárstreymistækisins úr 40 prósentum í 20 prósent, samkvæmt greinargerðinni.
Önnur ákvæði reglnanna, svo sem um bindingargrunn, bindingartíma og vexti á fjárstreymisreikningum eru óbreytt. Í greinargerðinni kemur fram að ástæðan fyrir lækkun bindingarhlutfallsins sé einkum sú að nokkur ríki hafi aðlagað peningastefnu sína að eðlilegra vaxtastigi á sama tíma og stýrivextir Seðlabankans hafi lækkað og séu raunar lágir í sögulegu samhengi. Dregið hafi því úr vaxtamuni við útlönd, sem aftur dragi úr hvata til vaxtamunarviðskipta.
Seðlabankinn greip inn í markaðinn
Samkvæmt fjármálaráðuneytinu hefur talsvert dregið úr hreinu innstreymi erlends fjármagns vegna nýfjárfestingar á árinu. Innflæði í ríkisskuldabréf hefur verið hverfandi og verulega hefur dregið úr innstreymi í skráð hlutabréf en þau falla ekki undir sérstöku bindiskyldu Seðlabankans. Hreint innstreymi vegna nýfjárfestingar frá ársbyrjun til loka ágústmánaðar nam 21 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam innstreymið 93 milljörðum króna.
Velta hefur einnig verið lítil á gjaldeyrismarkaðnum í heild. Heildarvelta frá ársbyrjun til loka september, nemur 120 milljörðum króna, sem er minni velta en á fyrstu þremur mánuðum síðastliðinna tveggja ára. Árið 2016 og í upphafi árs 2017 keypti Seðlabankinn talsvert af erlendum gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði og byggði með því upp gjaldeyrisforða sinn en jafnvel þó leiðrétt sé fyrir inngripum Seðlabankans þá er veltan í ár mun minni en undanfarin ár.
Fram kemur í greinargerðinni að seðlabankinn hafi gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn í september í fyrsta sinn í ár þegar hann keypti krónur fyrir sem svarar til 1,2 milljarða króna á einum viðskiptadegi. Bankinn greip inn í markaðinn á ný á einum viðskiptadegi í október og keypti aftur krónur fyrir sem svarar til 1,2 milljarða króna. Inngripin voru samkvæmt ráðuneytinu í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans frá 17. maí á síðasta ári þar sem sagði að Seðlabankinn myndi grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann teldi tilefni til.