Aldrei hafa fleiri viðskipti átt sér stað með bréf í einu félagi, sé horft yfir síðasta ártuginn á markaði, en áttu sér stað í dag með bréf í Icelandair Group.
Markaðsviði Icelandair rauk upp um 39,2 prósent, eftir að tilkynnt var um yfirtöku félagsins á WOW Air, sem fjallað hefur verið ítarleg um að vef Kjarnans í dag.
Á Facebook síðu Nasdaq er fjallað um þennan mikla fjölda viðskipta. „Mikið um að vera á markaði í dag. 277 viðskipti voru með Icelandair Group fyrir rúmar 948 milljónir og hækkaði gengi félagsins um 39,2%. Má einnig nefna að aldrei hafa verið fleiri viðskipti með félag á einum degi í yfir áratug, að undanskildum viðskiptum á fyrsta skráningardegi þriggja félaga. Heildarfjöldi viðskipta í dag var sá mesti á árinu, en þau voru 605 á hlutabréfamarkaði. OMXI8 Úrvalsvísitalan fór upp um 4,7%. Skuldabréfamarkaðurinn var líka með hressara móti í kjölfar fregna frá Seðlabankanum um slökun á innflæðishöftum (bindiskyldu), en í dag var fjórði veltumesti dagurinn á skuldabréfamarkaði á árinu og fjöldi viðskipta var 160 sem er líka met í ár,“ segir á Facebook síðu Nasdaq.
Þessi mikla hækkun Icelandair hafði mikil áhrif á heildarútkomu vísitölu markaðarins. Hún hækkaði um 4,7 prósent, eins og áður segir, og hækkuðu nær öll félögin sem skráð eru á markað um 1,5 til rúmlega 5 prósent.
Eina félagið sem lækkaði í verði var Sýn, um tæplega 2 prósent.