Síminn hefur staðfest við Kjarnann orðróm síðustu daga, sem Fótbolti.net greindi fyrst frá, um að Síminn og Enska úrvalsdeildin hafa náð samningum um sýningaréttinn frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu frá og með tímabilinu 2019/2020.
Gildir sýningarrétturinn út þrjú leiktímabil. „Við erum afskaplega stolt að hafa náð þessu frábæra sjónvarpsefni til Símans. Enska úrvalsdeildin er eitt vinsælasta sjónvarpsefni landsins og við erum spennt að kynna nýjungar til leiks sem ekki hafa verið í boði áður eins og t.d. 4K útsendingar. Það ætti einnig að gleðja áðdáendur enskrar knattspyrnu að við munum sýna um 15% fleiri leiki í beinni útsendingu en er gert í dag,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Frá því árið 2007 hefur enski boltinn verið hjá Sýn og áður 365, en nú verður breyting á frá og með næsta keppnistímabili.
Ekki eru gefnar upp nákvæmar upplýsingar um virði samningins, en Sýn bauðst ekki að jafna tilboð Símans í enska boltann, sem þýðir að tilboðið var meira en 10 prósent hærra en hjá Sýn.
Markaðsvirði Símans er nú 35,6 milljarðar króna, en eigið fé félagsins, miðað við lok þriðja ársfjórðungs þessa árs, var þá 37,6 milljarðar.