Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir þeirra sem fóru frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í október síðastliðnum og fjölgaði þeim verulega frá því í sama mánuði í fyrra eða um 35,6 prósent. Fækkun var í brottförum Norðurlandabúa, íbúa frá Bretlandseyjum og Asíu og var hún á bilinu 7,7 prósent til 13,2 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.
Brottfarir erlendra farþega í október á þessu ári voru um 200 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 17.700 fleiri en í október á síðasta ári.
Fjölgunin í október nam 9,7 prósent milli ára en hún hefur einungis mælst hærri tvo mánuði ársins, í maí þegar hún mældist 13,2 prósent og í september þegar hún mældist 13,6 prósent.
Mun minni fjölgun nú en fyrir nokkrum árum
Í frétt Ferðamálastofu kemur fram að ef litið sé til haustsins í heild, eða í september til október, megi sjá mun minni fjölgun í brottförum erlendra farþega á árunum 2016 til 2018 en á árunum 2014 til 2016. Þannig var aukningin 11,8 prósent milli ára 2017 til 2018 að hausti til, 15,6 prósent milli ára 2016 til 2017 en 50,2 prósent frá 2015 til 2016 og 43,6 prósent frá 2014 til 2015. Bandaríkjamenn hafa borið uppi aukningu haustsins en þeim hefur fjölgað um 40,1 prósent.
Frá áramótum hafa tvær milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,9 prósent fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra. Brottfarir í október hafa þrefaldast frá árinu 2014 og hefur fjölgunin verið að jafnaði 33,3 prósent á milli ára.
Ríflega fimmföldun N-Ameríkana frá árinu 2014
Ferðamálastofa skoðar breytinguna frá 2017 til 2018 nánar en samkvæmt henni má sjá fækkun frá Norðurlöndunum, eða um 13 prósent, og Bretlandi, 10 prósent, lítilsháttar fjölgun frá Mið- og Suður-Evrópu og þeim löndum sem falla undir annað en umtalsverða fjölgun frá Norður-Ameríku eða 35 prósent.
Jafnframt kemur fram að þegar horft er lengra aftur í tímann megi í langflestum tilfellum sjá aukningu milli ára, þá einkum Norður-Ameríkubúa. Þeim hafi fjölgað um 22 prósent milli ára 2016 til 2017, 85 prósent milli ára 2015 til 2016 og 75 prósent milli ára 2014 til 2015. Um sé að ræða ríflega fimmföldun Norður-Ameríkana á tímabilinu.
„Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara að hausti er skoðuð má sjá að hún hefur breyst nokkuð með árunum. Árið 2018 voru um tveir af hverjum fimm farþegum frá Norður-Ameríku en hlutdeild þeirra hefur aukist ár frá ári. Hlutdeild þeirra sem falla undir annað hefur jafnframt verið að aukast. Á sama tíma hefur hlutdeild Norðurlandabúa, Breta og Mið- og Suður-Evrópubúa minnkað,“ segir í frétt Ferðamálastofu.