Framleiðni á Íslandi var aukin um þriðjung með einu pennastriki þegar Hagstofa Íslands breytti útreikningum sínum um fjölda vinnustunda fyrr á þessu ári. Eftir þessa „smávægilegu“ breytingu á framsetningu þá hefur framleiðni íslenskra starfsmanna aukist til muna, á pappírunum.
Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Ísland er í flokki þeirra ríkja heims sem vinna fæstar vinnustundir ólíkt því sem áður var talið og framleiðni hér er ein sú hæsta meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Ísland er ekki í nýjum tölum OECD um vinnustundir því Hagstofa Íslands birti fyrr á þessu ári nýtt mat á útreikningum vinnustunda og á OECD eftir að taka tillit til þess,“ sagði meðal annars í frétt Stöðvar 2.
Í mati Hagstofunnar kemur fram að fjöldi vinnustunda á Íslandi sé 16-22 prósent lægri en áður var talið. Það skýrist meðal annars af því að einstaklingar hafi gefið upp of margar vinnustundir í úrtakskönnun vinnumarkaðsrannsóknar. Í því sambandi hafi verið bent á að hefðbundin 40 stunda vinnuvika sé í raun styttri vegna kjarasamningsbundinna réttinda. Þannig hafi menn tekið matartíma og hlé inn í fjölda vinnustunda, sagði meðal annars í frétt Stöðvar 2.
„Frá því að vera undir meðaltali í alþjóðlegum samanburði þá er Ísland 20 prósent yfir meðaltalinu og orðið sambærilegt við Svíþjóð, hærra en Finnland og meðal efstu þjóða hvað framleiðni varðar,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali við Stöð 2.