Fjármálastjórar íslenskra fyrirtækja gera ráð fyrir gengisfalli og versnandi horfum í efnahagslífinu á næstunni.
Þetta má lesa út úr niðurstöðum könnunar Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins, sem fjallað er um í Viðskiptablaðinu í dag.
Könnunin hefur verið gerð síðan 2014, og sýna niðurstöður nú meiri svartsýni en áður.
Fleiri fjármálastjórar en áður, búast við því að það muni draga nokkuð úr ráðningum, frekar en að þær aukist, og þá búast þeir einnig við því að úrvalsvísitala Kauphallar Íslands muni lækka frekar en hækka á næstunni.
Á þessu ári hefur úrvalsvísitalan hækkað um rúmlega 2 prósent, en sé horft yfir 12 mánaða tímabil þá hefur vísitalan lækkað um 0,14 prósent, samkvæm upplýsingum á vef Keldunnar.
„Hlutfall þeirra sem búast við lækkandi rekstrarhagnaði og minni tekjum hefur einnig hækkað. Þá telja 88% að ekki sé góður tími til að auka áhættu í efnahagsreikningi síns fyrirtækis, sem er hæsta hlutfall frá árinu 2014,“ segir í umfjöllun Viðskiptablaðsins.
Í viðtali við blaðið segir Haraldur I. Birgisson, forstöðumaður viðskipta- og markaðstengsla hjá Deloitte, að aukin varkárni og jafnvel svartsýni sýni sig í öllum lykilstærðum sem kannaðar voru í könnuninni.
Gengi íslensku krónunnar hefur veikst nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum að undanförnu, en veikingin nemur um 15 prósentum frá því í júlí. Evran kostar nú 140 krónur og Bandaríkjadalur tæplega 125 krónur.