Ólafur Ísleifsson, þingamaður Flokks fólksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga sem gerir ráð fyrir því að veðið að baki húsnæðislánum sé eingöngu bundið við fasteignina, og því ekki hægt að ganga að öðrum eignum þeirra sem taka húsnæðislánið.
Aðrir flutningsmenn frumvarpsins eru Anna Kolbrún Árnadóttir Miðflokki, Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki, Birgir Þórarinsson Miðflokki, Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins, Halldóra Mogensen Pírötum, Helgi Hrafn Gunnarsson Pírötum, Inga Sæland Flokki fólksins, og Karl Gauti Hjaltason Flokki fólksins.
„Glati samningur um fasteignalán veðtryggingu í fasteign í kjölfar nauðungarsölu teljast eftirstöðvar lánsins fallnar niður gagnvart neytanda. Gildir það sama eftir því sem við á um önnur lögbundin úrræði vegna skuldaskila fasteignalána til neytenda, svo sem gjaldþrotaskipti, nauðasamninga, greiðsluaðlögun eða aðrar sambærilegar ráðstafanir sem rekja má til greiðsluvanda neytanda og leiða til þess að samningur um fasteignalán glatar veðtryggingu í fasteign,“ segir í breytingartillögu til laga um fasteignaveðlán til neytenda.
Markmið frumvarpsins er að stuðla að „vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær“ eins og orðrétt segir í greinargerð með frumvarpinu.
Enn fremur segir að frumvarpið sé þannig mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka.