Gylfi Sigfússon mun láta af störfum sem forstjóri Eimskipafélags Íslands um næstu áramót. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til kauphallar. Ekki hefur verið ráðið í starfið en ráðningarferli hefur verið sett af stað.
„Gylfi Sigfússon á að baki farsælan starfsferil hjá Eimskipafélagi Íslands sem spannar um 28 ár en hann tók við stöðu forstjóra í maí 2008 er hann var beðinn um að leiða fyrirtækið í gegnum krefjandi endurskipulagningu. Áður en Gylfi tók við sem forstjóri félagsins var hann framkvæmdastjóri Eimskips í Bandaríkjunum, Kanada og Eimskip Logistics, en hann mun frá og með 1. janúar 2019 taka aftur við daglegum rekstri og flytjast til Bandaríkjanna,“ segir í tilkynningu frá Eimskip.
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður, segir markmiðið framundan vera að byggja reksturinn áfram á sama grunni og verið hefur. „Verkefnið var ekki aðeins mikilvægt fyrir Eimskip heldur einnig fyrir hagsmuni Íslands; að tryggja óhefta flutninga til og frá landinu á erfiðum tímum, treysta rekstrargrundvöll heima og erlendis, auk þess sem hann stýrði félaginu til nýrrar framtíðar með dugmiklu og samstilltu starfsfólki. Vinnan við endurskipulagninguna tókst vel og félagið stendur sterkt eftir. Markmiðið er að byggja reksturinn áfram á þeim grunni sem lagður var undir stjórn Gylfa. Fyrir hönd stjórnar félagsins færi ég honum þakkir fyrir hans góða starf og óska honum velfarnaðar vestanhafs þar sem hann mun leiða uppbyggingarstarf félagsins í Norður-Ameríku.“
Gylfi segir sjálfur í tilkynningu að nú sigli Eimskip inn í spennandi tíma. „Mér er efst í huga þakklæti til þeirra fjölmörgu stjórnarmanna, stjórnenda og starfsmanna sem og viðskiptavina félagsins sem mér auðnaðist að vinna með á þessum tíma. Þessir aðilar settu allt sitt á vogarskálarnar til að koma Eimskip aftur á skrið. Rekstrar- og fjárhagsleg endurskipulagning félagsins reyndi mikið á starfsfólk en uppskeran var góð og nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma. Ég mun stýra frekari uppbyggingu félagsins í Norður-Ameríku, en vikuleg siglingaáætlun til og frá Norður-Ameríku sem kynnt var á síðasta ári er hornsteinn þjónustunnar. Ég óska félaginu, stjórn, starfsmönnum og viðskiptavinum alls hins besta á komandi árum,“ segir Gylfi í tilkynningu.
Markaðsvirði félagsins er nú rúmlega 37 milljarðar króna en eigið fé félagsins nam tæplega 30 milljörðum króna um mitt þetta ár.