Fyrirsjáanlegt er að verð á flugmiða á eftir að hækka umtalsvert þar sem kostnaðurinn við mengun er sífellt að verða meiri.
Þetta segir dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa - grænna lausna, í viðtali við RÚV, en þriðji hluti fréttaskýringaþáttarins Kveiks, þar sem fjallað er um loftslagsbreytingar og umhverfismál, verður sýndur á morgun.
Í þættinum verður fjallað um flug og þær áskoranir sem flugfélög - og samfélög almennt - standa frammi fyrir vegna vaxandi kostnaðar við mengun og útblástur, í samræmi við ákvarðanir þjóða þar um.
Kerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir, sem Ísland er hluti af, er hannað þannig að þeir sem menga, borgi fyrir það. Verð á losunarheimildum hefur hækkað mikið, sem og eldsneytisverð, og segir Jón Ágúst í viðtali við RÚV að miklar breytingar séu framundan hvað þetta varðar.
„Það er ekki nokkur vafi á því að verð á flugi mun hækka verulega. Það þurfa allir á því að halda, ekki síst náttúran. Og þar kemur til að við sem fljúgum, ETS-reikningurinn endar í flugmiðaverðinu. Þannig að það mun gerast algerlega af sjálfu sér að verð á flugi mun hækka,“ segir Jón Ágúst.