Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup HB Granda á öllu hlutafé Ögurvíkur.
Þetta kemur fram í tilkynningu HB Granda til Kauphallarinnar, en félagið er eina útgerðarfélagið hér á landi sem skráð er á markað.
„Samkeppniseftirlitið tilkynnti HB Granda í dag að það „teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar“ vegna kaupa félagsins á Ögurvík. Þar með eru allir fyrirvarar vegna kaupanna fallnir niður,“ segir í stuttri yfirlýsingu HB Granda til kauphallar.
Kaupin voru samþykkt á hluthafafundi HB Granda með 95,8 prósent atkvæða fyrr í mánuðinum, en seljandi félagsins er Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), áður Brim. Forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti eigandi ÚR, sem síðan er stærsti eigandi HB Granda með rúmlega 35 prósent hlut.
Félagið er nú verðmetið á 58,4 milljarða króna, miðað við gengi bréfa félagsins í lok dags í dag.