Embætti ríkissaksóknara hefur sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands í Aurum-málinu svokallaða. Frá þessu er greint á vef Stundarinnar og hefur Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarsaksóknari staðfest þetta við Stundina.
Áfrýjunarfrestur í málinu rann út í gær en allir ákærðu í málinu, Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson og Magnús Arnar Arngrímsson, voru sýknaðir í Landsrétti af ákæru um umboðssvik 24. október síðastliðinn.
Hægt er að lesa dóm Landsréttar í málinu í heild sinni hérna.
Málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited.
Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni. Héraðssaksóknari, áður sérstakur saksóknari, vildi meina að Jón Ásgeir hafi þannig fengið hlut í ávinningi af brotinu og notið hagnaðarins.
Lárus og Magnús Arnar voru ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánveitingarinnar til FS38 en Jón Ásgeir var ákærður fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum.