Kristinn Hrafnsson, blaðamaður, sem meðal annars hefur unnið fyrir WikiLeaks, segir ekkert til í þeim fréttum sem sagðar hafa verið um allan heim í dag, að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hafi átt leynilega fundi með Julian Assange, forsprakka WikiLeaks.
Greint var frá þessum fundum í The Guardian, en á Facebook segir Kristinn ekki vera neitt til í þessum umfjöllunum.
„Það eru þung skref fyrir blaðamann að þurfa að undirbúa lögsókn gegn fjölmiðli fyrir skaðlegan fréttaflutning. Árum saman hefur Guardian flutt rangar fréttir af WikiLeaks og Julian Assange, án þess að við því hafi verið brugðist af hörku. Fremstur í flokki gerenda er maður að nafni Luke Harding. Í dag birti hann frétt sem var dropinn sem fyllti mælinn. Þar er ranglega fullyrt að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trumps, hafi átt leynifundi með Julian Assange í sendiráði Ekvadors í Lundunúnum. Það er enginn fótur fyrir fréttinni. Ekki flugufótur. Guardian fékk að vita það fyrirfram en kaus engu að síður að keyra fréttina út. Hún var rétt áðan helsta frétt flestra miðla í heiminum. Toppaði meðal annars á google.news. Það gefur augaleið hvaða áhrif frétt af þessum toga hefur og hvernig henni er ætlað að vera einhver sönnun um samsæri WL með rússum. Þetta kemur nokkrum dögum eftir að ljóst er að ákæra gegn Assange liggur fyrir (undir leynd) og framsalskrafa er á borðinu. Á sama tíma er ljóst að nýir stjórnarherrar í Ekvador eru komnir í fangið á Bandaríkjastjórn og leita nú að réttlætingu fyrir því að ota Julian út úr sendiráðinu og í fangið á Bandarískum saksóknurum sem munu lögsækja hann fyrir að gera það sem blaðamenn eiga að gera: Birta sannleikann. Guardian steig gróflega yfir strik í dag. Nú er kallað eftir hópfjármögnun til þess að lögsækja dagblaðið. Það kostar allt að $300 þúsund. Réttlætið er dýrt í London. Á fyrsta klukkutíma söfnuðstu $12 þúsund.
Ekkert skaðar blaðamennsku meira en óvandaðir og auðvirðulegir blaðamenn,“ segir Kristinn á Facebook síðu sinni.
Manafort er nú í fangelsi að sitja af sér refsingu, en hann viðurkenndi að hafa sagt bandarísku alríkislögreglunni FBI ósatt við rannsókn.
Hann var fundinn sekur um að hafa haldið eftir tekjum á aflandsreikningum, sem hann fék meðal annars greitt frá erlendum yfirvöldum, meðal annars í Úkraínu.
Í umfjöllun The Guardian er fullyrt að Manafort hafi hitt Assange á fundum í mars 2016, en þessu neitar Manafort sjálfur, sem sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í dag. Hann segist ekki hafa hitt Aassange, eða nokkurn annan frá WikiLeaks.
Í umfjöllun The Guardian segir að fundirnir hafi átt sér stað skömmu áður en það birtust umfjallanir á vef WikiLeaks, meðal annars um tölvupósta Demókrataflokksins og Hillary Clinton, sem komu sér illa fyrir Demókrata í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2016.