Airport Associates, þjónustufyrirtæki á Keflavíkurflugvelli, sagði í dag upp 237 starfsmönnum, en ástæðan er sú óvissa sem uppi er um starfsemi WOW air eftir að fallið var frá kaupum Icelandair á félaginu.
Víkufréttir greindu fyrst frá málinu í dag. „Við hörmum að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða og vonumst til að geta afturkallað þessar uppsagnir svo fljótt sem kostur er, þegar flugáætlun skýrist,“ sagði Sigþór K. Skúlason, forstjóri Airport Associates.
Hann segir að það væri óábyrgt að grípa ekki strax til varúðarráðstafana.
Í samtali við RÚV í kvöld sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, að uppsögnin væri mikið áfall. „Það eru að koma jól og þetta er viðkvæmur tími en það er aldrei góður tími til að fá svona fréttir,“ segir Kjartan.
Uppsögnin er sú stærsta frá því varnlarliðið fór frá Íslandi árið 2006, en þá hurfu mörg hundruð þjónustustörf sem fólk á Suðurnesjum sinnti.
Með miklum vexti í ferðaþjónustunni hefur störfum fjölgað mikið á Keflavíkurflugvelli, og hefur Airport Associates fjölgað starfsfólki jafnt og þétt til að sinna vaxandi umsvifum flugfélaga, þar á meðal WOW air.