Stjórn Flokks fólksins og framkvæmdastjórn mun koma saman klukkan fimm í dag til þess að ræða málið innan sinna raða. Þetta kemur fram í máli Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í umfjöllun Stundarinnar í dag.
Inga segir að sér sé brugðið vegna þess sem fram hefur komið. Vísar hún til ummæla þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem hafa verið til umfjöllunar á fréttamiðlum hér á landi í gærkvöldi og í dag. Hún segist aftur á móti ekki hafa orðið vör við klofning innan flokksins.
„Við erum að tala um 12 prósent kjörinna Íslendinga sem eru að haga sér svona. Og ef skilaboðin eru svona, sem löggjafinn er að senda til fólksins í landinu þá er það bara dapurt og við tökum ekki þátt í því,“ segir Inga í samtali við Stundina en hún sé „undrandi“ og „hissa“ vegna upplóstrana af fundi þingmanna Flokks fólksins og Miðflokksins.
„Mér finnst þetta bara dapurt og það lýsir bara þeim sem viðhafa svona munnsöfnuð og fyrst og síðast, alveg rosalegri lítilsvirðingu og kvenfyrirlitningu, og kemur manni algjörlega í opna skjöldu, sérstaklega frá einstaklingum sem þykjast nú aldeilis vera jafnréttissinnaðir og allt það, það er greinilega ekki svo, það er nokkuð ljóst,“ segir hún.
Sagði viðbrögð Sigmundar sorgleg
Inga sagði málið allt saman sorglegt í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í morgun og enn sorglegri væru viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Hann var einn fjögurra þingmanna þess flokks sem sat við drykkju á umræddum hittingi og tók virkan þátt í umræðum þar sem rætt var með niðrandi hætti um m.a. aðra stjórnmálamenn og konur.
Sigmundur Davíð birti stöðuuppfærslu í gær þar sem hann fjallaði ekki efnislega um neitt sem fjölmiðlar höfðu birt úr upptökunum en sagði það alvarlegast í málinu „ef raunin er sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.“ Hann gaf einnig í skyn að hann vildi láta rannsaka fjölmiðla vegna þess að tal hans við þingmennina hafi verið tekið upp.
Inga sagði viðbrögð Sigmundar Davíðs vera þau sömu og í mörgum öðrum málum sem að honum snúi, t.d. „þegar hann flytur bunka af peningum“ í skattaskjól. Hann kenni öðrum um og geti ekki litið í eigin barm. Miðflokkurinn megi „éta það sem úti frýs“. Flokkur fólksins sé ekki að fara í eina sæng með þeim flokki með neinum hætti.