„Yfirlýsingar þingmanna Miðflokksins eru óafsakanlegar. Trúnaðarbrestur hefur átt sér stað milli þeirra, þings og þjóðar. Það orðfæri og sleggjudómar sem orðið hafa tilefni fréttaskrifa í dag lýsa vanmætti, ótta og úreltum viðhorfum.“
Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og meningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, á Facebook síðu sinni.
Vísar hún þar ummæla sem þingmenn Miðflokksins létu falla í samtölum sín á milli á barnum Klaustur, 20. nóvember síðastliðinn. Upptökur af samtölunum fóru til DV og Stundarinnar, sem hafa sagt fréttir af því hvað þeir ræddu.
Þar á meðal er niðrandi tal um stjórnmálakonur, og er Lilja Dögg Alfreðsdóttir þar á meðal. Er hún meðal annars kölluð „tík“.
Þingmenn Miðflokksins, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, hafa beðist afsökunar á orðum sem þeir létu falla. Gunnar Bragi sagði í viðtali við Kastljósið að hegðun hans hefði einfaldlega verið óafsakanleg, og sagðist hann hafa eytt deginum í að biðja fólk afsökunar.
Þeir þingmenn sem ræddu málin voru Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, Flokki fólksins.
Stjórn Flokks fólksins hefur þegar ályktað á þann veg, að Ólafur og Karl Gauti eigi að segja af sér þingmennsku.
Í viðtali við Gunnar Braga í kvöld, sem birt var í Kastljósi RÚV, sagði hann enga ástæðu til að segja af sér, enda hefði ekkert brot átt sér stað.