Landsnefnd UN Women fordæmir þá kvenfyrirlitningu og hatursorðræðu sem Gunnar Bragi Sveinsson og fimm aðrir þingmenn viðhöfðu á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn. Landsnefndin segir Gunnar Braga hafa skaðað orðspor HeForShe hreyfinguna og Barbershop verkfærakistunnar með ummælum sínum á barnum.
„Þau ummæli sem vitnað hefur verið til eru algjörlega óásættanleg og staðfesta hve mikið verk er enn óunnið í baráttunni fyrir kynjajafnrétti á Íslandi,“ segir í yfirlýsingu frá landsnefndinni.
Sérstaklega vonsvikin yfir Gunnari Braga
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, segir stjórn og starfsfólk UN Women á Íslandi harmi slegið og að þau séu sérstaklega vonsvikin yfir ummælum Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, og segja ummæli hans hafa skaðað orðspor hreyfingarinnar en HeForShe hreyfingin gengur ekki síst út á að uppræta niðrandi tal um konur.Gunnar Bragi Sveinsson fékk HeForShe verðlaun fyrir þátttöku sína í verkefninu árið 2015. Sama ár hélt hann ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í ræðunni sagði hann að Ísland myndi halda jafnréttismálum á lofti og lagði áherslu á HeforShe jafnréttisátakið, sem beinist að karlmönnum og ábyrgð þeirra í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.