Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir í ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag, að mikilvægt sé að endurskoðuð lög um starfsemi Seðlabanka Íslands treysti sjálfstæði hans í sessi.
Hann segir lögin þurfa að vera skýr hvað sjálfstæðið varðar, og en að þau þurfi jafnframt að gera kröfur til bankans sem lykilstofnunar í íslensku samfélagi. Vel geti komið til greina að seðlabankastjóri komi erlendis frá, en reynslan af erlendum nefndarmönnum í peningastefnunefnd hafi verið góð, að sögn Gylfa.
„Það er einföld ástæða fyrir því að seðlabönkum er gefið sjálfstæði. Ástæðan er sú að þannig er unnt að treysta því best að þeir tryggi lága verðbólgu þegar til lengri tíma er litið þótt það kosti óvinsælar aðgerðir til skamms tíma. Reynslan hefur sýnt að verðbólga er lægst í þeim löndum þar sem seðlabankar eru sjálfstæðastir. Stjórnmálamenn sem þurfa stöðugt að hafa vinsældir sínar í huga gætu frekar fallið í þá freistingu að kaupa sér vinsældir til skamms tíma með vaxtalækkunum sem örvuðu efnahagslífið þótt verðbólga hækki þegar til lengri tíma er litið. Þess vegna væri þeim síður treyst til þess að viðhalda lægri verðbólgu.
Mikil viðbrögð við 25 punkta vaxtahækkun Seðlabankans í byrjun nóvember er skýrt dæmi þess hve erfitt væri fyrir stjórnmálamenn að bera ábyrð á peningastefnu sem eðli máls samkvæmt krefst jafn oft vaxtahækkunar og vaxtalækkunar.
Seðlabanka Íslands var veitt sjálfstæði með lögum árið 2001. Það er mikilvægt að í nýjum lögum sé slíkt sjálfstæði tryggt en jafnframt að hann beri ábyrgð á gerðum sínum. Hér eru nokkur sem mætti taka til greina til þess að tryggja slíkt sjálfstæði:
Tryggja verður að seðlabankastjóri og aðstoðarbankastjórar hafi menntun og reynslu á sviði hagfræði og fjármála. Á Íslandi eru gerðar strangar kröfur til hagfræðimenntunar framhaldsskólakennara og verða a.m.k. sömu kröfur að vera gerðar til seðlabankastjóra.
En menntun á sviði fjármála og hagfræði tryggir ekki ein og sér hæfileika til að taka farsælar ákvarðanir. Þess vegna er mikilvægt að setja reglur um hverjir geti setið í nefndum sem meta hæfi umsækjenda: að þeir hafi líka a.m.k. sama bakgrunn og krafist er af seðlabankastjóra og séu ekki tengdir umsækjendum eða pólitískum hagsmunum. Æskilegt væri að fá erlenda sérfræðinga í slíkt nefndarstarf.
Seðlabankastjóri Bretlands er Kanadamaður og hefur reynst vel. Ekkert ætti að útiloka að góður umsækjandi sem er af erlendu bergi brotinn geti sótt um starf seðlabankastjóra eða aðstoðarseðlabankastjóra. Reynslan af tveimur erlendum ríkisborgurum sem setið hafa í peningastefnunefnd síðan árið 2009 er góð.
Ráðningatími bæði seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og nefndarmanna peningastefnunefndar verður að vera nægilega langur til þess að þessir aðilar hugsi til langs tíma og þurfi sem minnst að huga að því hvort ráðning þeirra verði lengd um annað tímabil.
Setja verður seðlabanka skýr markmið sem síðan er hægt að nota til þess að dæma frammistöðu hans. Slík markmiðasetning gerir einnig auðveldar að spá fyrir um ákvarðanir hans,“ segir í Gylfi meðal annars í grein sinni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.