Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, staðfesti við fréttir Stöðvar 2 í kvöld, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefði rætt um áhuga Gunnars Braga Sveinssonar, á því að fara starfa erlendis á vegum Íslands, á fundi með honum og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra.
Bjarni sagði að fundurinn hefði farið fram að frumkvæði Sigmundar Davíðs.
Þessi mál komu meðal annars fram í umræðum þingmanna á Klaustur bar, 20. nóvember síðastliðinn, sem hafa dregið mikinn dilk á eftir sér. Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson eru farnir í leyfi sem þingmenn Miðflokksins og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson hafa verið reknir úr Flokki fólksins.
Á vef Kvennablaðsins hafa verið birt nákvæmari upplýsingar um samtal Sigmundar Davíðs af fundi hans með Bjarna og Guðlaugi Þór, en þær koma af upptökunum frá Klaustur bar.
Þar segir, í endurskrift af upptökunni:
„Sigmundur tekur við og staðfestir söguna: „af því ég veit þetta er rétt. … Bjarni má eiga það, hann viðurkenndi það, að hann hefði … við sig. Að Bjarni, þegar ég hitti hann, við sátum hérna í klukkutíma og áttum spjall. Bjarni fór út um víðan völl en niðurstaðan var sú að hann hefði fallist á það að ef þetta gengi upp þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.“
–„Eðlilega“ segir Bergþór.
„Já. Ókei,“ heldur Sigmundur áfram. „Næsta skref var að hitta Bjarna með Gulla Þór, sem var í tygjum við Bjarna. Og við hittumst hér inni, sátum saman og … Bjarni má eiga það, að … hann fylgdi málinu eftir. Á dögunum. Við erum komnir í samskipti við menn. Gunnar Bragi bíður eftir niðurstöðu. Nú þurfum við bara að klára hérna … Guðlaugur Þór …“
Í fréttum Stöðvar 2 var Bjarni spurður að því, hvort að þessi fundur hefði farið fram, þar sem hann skuldaði Framsóknarflokknum eitthvað, vegna skipan Geirs H. Haarde sem sendiherra, þá sagði hann það alls ekki vera svo. Hann hefði skýrt það, að ekkert slíkt væri á ferðinni.
Fundurinn með Sigmundi Davíð hefði verið að hans frumkvæði og þar hefði þessi áhugi Gunnars Braga verið ræddur.