Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segist hafa verið „ofboðslega“ ósátt við það tal þingmanna, sem gert var opinbert með upptökunum frá Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn. „Þetta er algjört ofbeldi,“ segir Lilja í viðtali við Einar Þorsteinsson, fréttamann RÚV og Kastljóss, en hluti af viðtali, sem birt verður í Kastljósi í kvöld, hefur verið birtur á vef RÚV.
Hún segist hafa bognað þegar allra grófustu ummælin, um hana sjálfa, komu fram. „Ég svaf ekkert aðfararnótt þriðjudags,“ segir Lilja, og segir ríkisstjórnarfund, sem fram fór á þriðjudagsmorgun, hafa verið erfiðan.
Þingmennirnir sex sem ræddu saman á fundinum á Klaustur bar, 20. nóvember, voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, allt þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Þeir tveir síðastnefndu hafa verið reknir úr Flokki fólksins, og Bergþór og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi. Enginn þingmanna hefur sagt af sér, og enginn hefur það í hyggju.
Lilja var í samræðunum meðal annars kölluð „helvítis tík“ af Gunnari Braga Sveinssyni, og fleiri niðrandi orð féllu um hana.
Hún hefur sagt að trúnaðarbrestur hafi átt sér stað á milli þingmannanna, þjóðarinnar og þingsins.