Skúli Mogensen, stofnandi og framkvæmdastjóri WOW air, gæti orðið meirihlutaeigandi að nafninu til í flugfélaginu ef Bill Franke, stjórnandi Indigo Partners, ákveður að fara sömu leið með WOW air og Wizz air. Þetta kemur fram á vef Túrista.is.
WOW air og Indigo Partners hafa fundað síðustu daga um mögulega fjárfestingu Indigo Partners í WOW air í kjölfar þess að hafa undirritað viljayfirlýsingu í síðustu viku. Bill Franke, stofnandi félagsins og helsti eigandi Indigo Partners hefur varið tveimur dögum hér á landi til þess að kynnast WOW air félaginu og fara yfir framtíðartækifæri þess. Í tilkynningu frá félaginu segir að viðræður gangi vel en að það eigi eftir að útkljá ýmis atriði varðandi leiðakerfi WOW air, flugvélasamninga ásamt samningum við skuldabréfaeigendur félagsins.
Ekki hefur þó enn komið fram hvort að Skúli Mogensen haldi meirihluta í félaginu eða ekki. Í umfjöllun Túrista er greint frá því að í íslenskum lögum er gerð krafa um að eignarhlut erlendra aðila í íslensku flugfélagi megi ekki vera meira en 49 prósent. Þessar reglur gilda einnig á EES-svæðinu.
Í frétt Túrista kemur hins vegar fram að Bill Franke er sagður hafa fundið leið fram hjá þessum reglum þar sem meginhluti eignar Indigo Partners í Wizz air hafi verið í gegnum eignarhald í breytanlegum skulda- og hlutabréfum. Þar með hafi beinn og óbeinn hlutur bandaríska fjárfestingafélagsins í Wizz air numið allt að 66 prósentum. Hlutdeild Indigo Partners í hefðbundnu hlutafé var þó aðeins um fimmtungur. Þar með var Indigo Partners langt undir hámarki Evrópusambandsins.
Bill Franke gæti því farið sömu leið með WOW air og látið Skúla fari með meirihluti í flugvéllaginu en það yrði þá bara nafninu til, samkvæmt frétt Túrista. Józef Váradi, forstjóri og stofnandi Wizz air hefur hins vegar bent á í viðtali við the Times að breytanlegum bréfunum fylgi enginn atkvæðisréttur og þar með fari Indigo Partners ekki með meirihluta atkvæða í Wizz air. Samkvæmt Váradi hefur samsetning þeirra með bréfin verið skoðuð og fengið samþykki.