„Ég trúi ekki öðrum en að fólk taki þessu mjög alvarlega og leggi sig allt fram um að einbeita sér að þessu verkefni. En það er auðvitað mjög margt annað sem athyglin beinist að. Svo veit ég líka að þau sem stjórna þessu landi vilja taka sér langt og gott jólafrí. Þannig að við sjáum hvað gerist. En við erum allaveganna á fullu.“ Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar hún er spurð hvort að hún sé vongóð um að samningar náist á vinnumarkaði áður en kjarasamningar renna út í lok þessa mánaðar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við hana í þættinum 21 sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Hægt er að sjá stiklu úr viðtalinu hér að neðan.
Hún segir að tíminn undanfarin misseri hafi ekki verið vel nýttur til að reyna að finna viðunandi niðurstöðu. „Við í Eflingu höfum á móti ákveðið að nýta okkar tíma mjög vel. Þar sem við erum annars vegar að vinna þessa vinnu sem snýr beint að þessum kjarasamningamálum. En svo erum við líka að heyja okkar baráttu á öðrum vígstöðvum.[...]að miðla okkar boðskap til sem flestar. Og ég ætla bara að fá að segja að þessi könnun sem niðurstöðurnar birtust úr í gær, sem snýr að almennu samþykki íslensks almennings á því að verkföll séu réttlætanleg, ég ætla að trúa því að okkar vinna í því að kynna að lífskjör og kynna tilveru láglaunafólks á Íslandi fyrir almenningi. Að þarna séum við að uppskera.“