Meirihluti landsmanna segir það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 18. til 22. október 2018.
Alls sögðu 34 prósent aðspurðra það vera mjög mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá, 18 prósent kváðu það frekar mikilvægt, 19 prósent hvorki mikilvægt né lítilvægt, 11 prósent frekar lítilvægt og 18 prósent mjög lítilvægt.
Hlutfall þeirra sem segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá hefur minnkað um rúm 4 prósentustig frá könnun MMR sem framkvæmd var í september 2017, úr 56 prósent niður í 52 prósent. Þá hefur hlutfall þeirra sem telja nýja stjórnarskrá lítilvæga aukist um 5 prósentustig yfir sama tímabil, úr 24 prósent í 29 prósent.
Konur reyndust líklegri til að segja endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga, eða 56 prósent, heldur en karlar, 49 prósent.
Hlutfall þeirra sem kváðu breytingar á stjórnarskrá mjög mikilvægar fór vaxandi með auknum aldri en 41 prósent þeirra 68 ára og eldri sagði mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá, samanborið við 28 prósent þeirra 18 til 29 ára.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins, eða 54 prósent, voru líklegri en þeir búsettir á landsbyggðinni, 48 prósent, til að telja stjórnarskrárbreytingar mikilvægar.
Stuðningsfólk Pírata (90 prósent), Flokks fólksins (85 prósent) og Samfylkingar (83 prósent) reyndist líklegast til að segja það mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (66 prósent), Miðflokks (60 prósent) og Framsóknarflokks (41 prósent) reyndist líklegast til að segja það lítilvægt.