Hlutabréf í Icelandair Group hafa hækkað um tæp 15 prósent það sem af er degi. Ástæðuna má rekja til tilkynningar WOW air, helsta samkeppnisaðila Icelandair, sem send var út fyrr í dag um að fyrirtækið sé að draga mjög saman seglin.
Helsta birtingarmynd þess eru uppsagnir á mörg hundruð starfsmönnum samhliða því að flugvélum í flota WOW air verður fækkað úr 20 í 11.
Raunar var hlutabréfaverð í Icelandair farið að hækka mjög í morgun, áður en tilkynning WOW air var send út um ellefuleytið. Það gefur til kynna að upplýsingar um aðgerðirnar hafi lekið út áður en formlega var tilkynnt um þær.
Kjarninn fékk upplýsingar um það í gær að til stæði að selja fjórar vélar WOW air, en fékk það ekki staðfest.
Rekstur WOW air hefur staðið tæpt um nokkuð langt skeið. Fyrirtækið fór í skuldabréfaútboð fyrr á þessu ári sem dugði ekki til að rétta reksturinn við. Í nóvember var tilkynnt að Icelandair ætlaði að kaupa WOW air en síðar var hætt við þau kaup.