Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 13,9 milljarða króna árið 2017, eða sem nemur 0,5 prósent af landsframleiðslu. Tekjur hins opinbera námu um 1.146,5 milljörðum króna árið 2017 en útgjöld voru 1.132,6 milljarðar. Hrein peningaleg eign hins opinbera var neikvæð um 526 milljarða króna í árslok 2017 eða 20,1 prósent af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í Hagtíðindunum fjármál hins opinbera.
Í fyrra námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 538 þúsundum króna á mann
Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru 223,9 milljarður króna árið 2017 eða 8,6 prósent af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 184,9 milljarðar króna en hlutur einkaaðila 38,9 milljarðar eða 17,4 prósent. Á mann námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 538,5 þúsundum króna og hækkuðu um 1,1 prósent frá fyrra ári.
Frá árinu 2012 hafa opinber heilbrigðisútgjöld á mann aukist um 11,2 prósent en eru enn 5 prósent lægri en árið 2008, þegar opinber heilbrigðisútgjöld á mann mældust hæst.
Til fræðslumála var ráðstafað 191,2 milljörðum króna árið 2017 eða sem nemur 7,3 prósent af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 173,4 milljarðar króna og hlutur heimilanna um 17,8 milljarðar króna eða 9,3 prósent. Á mann námu fræðsluútgjöld hins opinbera 505 þúsund krónum og drógust saman um 0,6 prósent að raungildi frá fyrra ári.
Tekjur ríkissjóðs jukust um 4,7 prósent á milli ára
Þegar fyrstu níu mánuðir ársins 2018 eru bornir saman fyrstu níu mánuði ársins 2017 þá benda bráðabrigðatölur til þess að tekjur ríkissjóðs hafi aukist um 4,7 prósent en á sama tíma hafi útgjöld aukist um 3,8 prósent. Í ár var tekjuafkoma hins opinbera var 40,1 milljarður á þessu tímabili en 33 milljarðar árið 2017. Tekjuafkoma fyrstu níu mánuði ársins er því 7,1 milljarð meiri en árið á undan.
Tekjuafkoman jákvæð um 1,8 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins
Tekjuafkoma hins opinbera eru 1,8 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins. Nam tekjuafgangurinn 0,2 prósent af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 0,6 prósent af heildartekjum hins opinbera.
Áætlað er að skattar og tryggingargjöld hafi skilað ríkissjóði um 190,5 milljörðum króna á 3. ársfjórðungi 2018, eða sem nemur 87,9 prósent tekna hans. Er það aukning um 6,4 prósent frá sama tíma árið 2017. Á gjaldahlið ríkissjóðs eru umfangsmestu útgjaldaliðirnir fjárframlög til almannatrygginga, launakostnaður, kaup á vöru og þjónustu og vaxtagjöld. Magnbreyting samneyslu ríkissjóðs mældist 2,6 prósent á 3. ársfjórðungi 2018 en á sama tíma 2017 var hún 2,2 prósent
Heildartekjur hins opinbera jukust um 6,0 prósent á 3. ársfjórðungi 2018 í samanburði við 3. ársfjórðung 2017. Á sama tíma var aukning í heildarútgjöldum hins opinbera 6,8 prósent. Útgjaldaaukningin skýrist helst af hærri launakostnaði og aukinni fjárfestingu. Magnbreyting samneyslu hins opinbera á 3. ársfjórðungi frá sama tíma árið áður var 3,4 prósent.
Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.583 milljörðum króna í lok 3. ársfjórðungs 2018 sem samsvarar 56,8 prósent af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 321 milljarð króna í lok ársfjórðungsins en það samsvarar 11,5 prósent af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eignastaða ríkissjóðs hefur batnað um 353 milljarða króna milli 3. ársfjórðungs 2017 og 2018.