Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, fullyrðir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi vitað af því, að greiðslur sem inntar voru af hendi, til að þagga niður umfjöllun um samband hans við tvær konur, hafi verið ólöglegar og að aðgerðirnar væru „rangar“.
Cohen hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi, meðal annars fyrir brot á skattalögum og lögum um fjármögnun stjórnmálastarfs. Þá hlaut hann einnig dóm fyrir að hafa sagt Bandaríkjaþingi ósatt.
I never directed Michael Cohen to break the law. He was a lawyer and he is supposed to know the law. It is called “advice of counsel,” and a lawyer has great liability if a mistake is made. That is why they get paid. Despite that many campaign finance lawyers have strongly......
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 13, 2018
Cohen þarf að hefja afplánun fyrir 6. mars.
Trump hefur sjálfur fullyrt að hann hafi ekki fyrirskipað greiðslurnar, og segir að Cohen hafi alfarið séð um þessi mál sjálfur. „Hann er lögfræðingur og á að þekkja lögin,“ sagði Trump meðal annars eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp.
Öll spjót standa nú á Donald Trump en búist er við því að Robert Mueller, saksóknari, sem rannsakar tengsl Rússa við forsetaframboð Trumps, muni ljúka rannsókn sinni á næstunni. Þá mun skýrast til fulls, hvaða efnisatriði hafa verið til rannsóknar og til hvaða aðgerða verður gripið.
Dagblaðið LA Times segir í umfjöllun í dag, að Trump sé einangraðari en hann hefur áður verið, þar sem margir haf hans nánustu bandamönnum hafa snúið við honum baki. Dómurinn yfir Cohen þykir áfall fyrir forsetann, þar sem hann staðfestir að greiðslurnar sem fóru fram, til að þagga niður umfjöllun, hafi verið ólöglegar.
Trump hélt því fram fyrst, að engar greiðslur hafi átt sér stað. Síðan breytti hann sögunni, en sagðist ekki hafa borið neina ábyrgð á greiðslunum.