Í kjölfar úrskurðar Kærunefndar jafnréttismála þann 19. september 2018 hafa 240 læknar sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra undirskriftalista með athugasemdum vegna vinnulags við ráðningaferla sérfræðilækna á Landspítala.
Þetta kemur fram á vef Læknafélags Íslands.
Bréf læknanna er sent, í tilefni af kæru og úrskurði, sem varðaði ráðningu í starf sérfræðilæknis á Landspítalanum. Í úrskurðinum segir meðal annars orðrétt: ,,Eins og að framan greinir stendur kærandi mun framar þeim er ráðinn var hvað varðar alla þá þætti er áskildir voru í auglýsingu og fyrir liggur að sá er ráðinn var uppfyllti ekki öll skilyrði auglýsingar er umsóknarfrestur rann út.”
Bréfið sem birt hefur verið á vef Læknafélags, fer hér í heild sinni:
„Við undirrituð viljum vekja athygli ráðherra á vinnulagi við ráðningarferla þegar ráðnir eru sérfræðingar til starfa við stærstu heilbrigðisstofnun landsins og jafnframt háskólasjúkrahúss.
Tilefni þessara skrifa er úrskurður Kærunefndar jafnréttismála, nr. 6 / 2018 vegna ráðningarferlis þegar Landspítalinn auglýsti stöðu sérfræðings í meltingarlækningum. Tvær umsóknir bárust og fengu umfjöllun stöðunefndar læknaráðs Landspítala. Það var töluverður munur á starfsreynslu meðal umsækjenda sem sérfræðingar í lyf – og meltingarlækningum, starfsreynslu við stjórnun, kennslu og á fræðilegu starfi. Svo vitnað sé beint í úrskurð kærunefndar: ,,Eins og að framan greinir stendur kærandi mun framar þeim er ráðinn var hvað varðar alla þá þætti er áskildir voru í auglýsingu og fyrir liggur að sá er ráðinn var uppfyllti ekki öll skilyrði auglýsingar er umsóknarfrestur rann út.”
Það er óásættanlegt að sérfræðilæknar geti ekki vænst þess að umsóknir þeirra fái faglega umfjöllun óháðra aðila við ráðningar að Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sérfræðilæknar hafa rekið sig á svipaðar niðurstöður, þó ekki hafi komið til kæru. Úrskurður þessi hefur verulega skaðleg áhrif á ímynd Landspítala sem háskólasjúkrahúss og mun hafa áhrif á áhuga lækna til að sækja um störf hér á landi. Við krefjumst úrbóta nú þegar.
Afrit af undirskriftarlistanum voru jafnframt send forstjóra Landspítala, læknaráði Landspítala og stjórn Læknafélags Íslands.“