Seðlabanki Íslands greip inn í viðskipti á fjármálamarkaði í dag, með því að selja um níu milljónir evra, eða um 1,2 milljarða króna. Var þetta gert til að vinna með styrkingu á gengi krónunnar.
Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði, spurðu sig að því hvers vegna Seðlabankinn hafi gripið inn í viðskiptin með þessum hætti í dag, en tiltölulega mikill stöðugleiki var á gjaldeyrismarkaði og ekki svo mikil veikning á gengi krónu gagnvart evru. Samtals var það um 0,6 prósent, en gengi krónunnar hefur styrkst nokkuð að undanförnu eftir skarpa veikningu í haust, samhliða fréttum um að WOW air riðaði til falls.
Evran kostar nú rúmlega 134 krónur en hún fór yfir 140 krónur fyrir nokkrum vikum.
Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur sjaldan verið stærri, en hann nemur nú um 700 milljörðum króna. Hann getur við unnið með áhrifamiklum hætti til að styrkja gengi krónunnar, ef hann kýs svo og þær aðstæður skapast.
Áætlun bankans um inngrip á markaði, miðast að því að beita sér gegn óæskilegum sveiflum, sem geta haft keðjuverkandi áhrif í hagkerfinu.
Undir lok árs var tilkynnt um það að eigendur aflandskróna gætu farið með eignir sínar í erlendum gjaldeyri úr landi, en lagafrumvarp þarf til að heimila slíkt. Þær eignir nema yfir 70 milljörðum. Gjaldeyrisforði seðlabankans er því vel rúmur til að takast á við það, og koma í veg fyrir að mikið fall á gengi krónunnar komi fram samhliða slíkum fjármagnsflutningum.