Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vekur athygli á því í umsögn sinni um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð að ríkið sem launagreiðandi hafi verið leiðandi í aukinni misskiptingu milli þeirra lægst launuðu og þeirra sem hafi hæstu launin.
Í umsögninni, sem skilað var inn til Alþingis í gær, segir að regluleg heildarlaun verkafólks hjá ríkinu hafi hækkað um 25 prósent milli áranna 2014 og 2017 á sama tíma og laun stjórnenda hjá ríkinu hækkuðu um 33 prósent.
Á almennum vinnumarkaði sé þessu hins vegar öfugt farið. Þar hækkuðu laun verkafólks um tæp 24 prósent á sama tímabili en laun stjórnenda um tæplega 20 prósent. „Í þessu samhengi er eðlilegt að stjórnvöld setji sér og geri grein fyrir launastefnu sinni og markmiðum varðandi launasetningu og launabil milli hópa. Þannig má t.a.m. spyrja hvort það sé meðvituð stefna stjórnvalda að forseti lýðveldisins sé með nærri tífalda lágmarkstekjutryggingu í mánaðarlaun?,“ segir í umsögninni.
Í umsögninni eru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við að til standi að hækka laun allra ráða- og embættismanna sem lagafrumvarpið nær til þann 1. júlí næstkomandi þrátt fyrir að fyrir liggi að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafi hækkað langt umfram almenna launaþróun. „ASÍ leggst sömuleiðis gegn því að ráðherra fái heimild til þess að hækka laun umrædds hóps þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins og leggur til launin taki breytingum einu sinni á ári þegar mat Hagstofunnar á breytingu reglulegra launa ríkisstarfsmanna liggur fyrir í júní ár hvert.“