Ný Vestmannaeyjaferja, eða Nýi Herjólfur, mun kosta 4,4 milljarða króna en það er undir kostnaðaráætlun. Upphaflega var reiknað með að 4,8 milljarðar færu í verkefnið.
Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Ákveðið var að rafvæða ferjuna í febrúar á síðasta ári en það var eftir að smíði hófst. Samkvæmt Vegagerðinni er kostnaður við rafvæðinguna um 800 milljónir króna en sá kostnaður var ekki inn í áætlun. Þannig hefði heildarkostnaðurinn orðið um 3,6 milljarðar ef ekki hefði verið ráðist í rafvæðinguna og líklega lægri, segir í svarinu.
Ferjan verður tvinntengil-ferja eða „plug-in-ferja“. Hún mun eingöngu geta siglt á rafmagni eða dísel eða sambland af hvoru tveggja. Gert er ráð fyrir að þegar hún siglir milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyjar verði hún eingöngu knúin rafmagni.
Í svari Vegagerðarinnar segir jafnframt að ferjan sé umhverfisvæn ferja og að dregið verði úr útblæstri sem svarar til 3000 bíla – samdráttur í kolefnisútblæstri nemi yfir 2000 tonnum af olíu miðað við núverandi ferju.
Hefur siglingar 30. mars
Stefnt er að því að hefja reglulegar siglingar þann 30. mars næstkomandi. Þetta staðfestir Vegagerðin. Þangað til mun núverandi Herjólfur sigla milli lands og Eyja.
Nýi Herjólfur er í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Crist S.A. í Gdansk í Póllandi. Afhending hefur dregist meðal annars vegna breytinga á búnaði skipsins en einnig hafa orðið tafir hjá skipasmíðastöðinni.
Samkvæmt Vegagerðinni er ekki ljóst hver nákvæmur afhendingartími verður. Hvorki rekstraraðilum né yfirvöldum hugnist vel að hefja rekstur á nýju og breyttu skipi um háveturinn og því sé þessi tími valinn í lok mars. Tíminn frá afhendingu og þar til rekstur hefst verði notaður til prófana á sjólagi skipsins og til þjálfunar á áhöfn en búnaður skipsins sé talsvert breyttur frá gamla Herjólfi.
Nýi Herjólfur hefur búnað sem gerir kleift að knýja skipið alfarið með raforku og er það í fyrsta sinn sem slík tækni er tekin til notkunar hér á landi. Með því móti er leitast við að leggja grunn að umhverfisvænum rekstri á nýju ferjunni og samgöngum við Vestmannaeyjar.
Núverandi Herjólfur mun sinna flutningum með sama hætti og verið hefur þar til ný ferja verður tekin í notkun og mun Eimskip reka ferjuna með óbreyttu sniði.
Í frétt Vegagerðarinnar sem birtist í lok september á síðasta ári segir að með nýjum Herjólfi sé reiknað með að frátafir í Landeyjahöfn minnki til muna sem muni auðvelda Vestmanneyingum ferðalög upp á land en ekki síður auka möguleika ferðaþjónustunnar í Eyjum. Vonir standi til þess að með nýja skipinu lengist ferðamannatímabilið í kjölfar þess að siglingar í Landeyjahöfn verði stöðugri. Það hafi sýnt sig að ferðamenn ferðist nær eingöngu í gegnum Landeyjahöfn á leið sinni til Vestmannaeyja.