Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. (ÚR) hefur með bréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kært ákvörðun Fiskistofu um 12 vikna sviptingu veiðileyfis Kleifabergs RE 70 frá 2. febrúar sl.
Félagið fer fram á að ráðuneytið felli ákvörðunina úr gildi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÚR, en Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er stærsti eigandi félagsins.
Í kærunni kemur fram að „svipting veiðileyfis sé alvarleg ákvörðun“ sem valda muni verulegu tjóni og er ekki í neinu samræmi við hin meintu brot. Tjónið er meira en áður hefur hlotist af stjórnvaldssektum og er sérstaklega hátt vegna þess að það fellur á þann árstíma sem skipið aflar að jafnaði þriðjung sinna tekna.
„Rökstuðningur ákærunnar er margþættur. Ákvörðun Fiskistofu byggir á mjög veikum lagagrunni og eru meint brot löngu fyrnd. Rannsókn Fiskistofu og aðferðir eru ámælisverðar og langt í frá fullnægjandi en myndskeið sem ákvörðun byggir á eru sviðsett, sýna ekki brottkast í skilningi laga og einnig eru skýringar og túlkanir Fiskistofu rangar. Þá er andmælaréttur brotinn og beiting Fiskistofu á sönnunarreglu er ólögmæt. Að síðustu er beiting hámarksrefsingar brot á meðalhófi og óboðlegt opinberu stjórnvaldi,“ segir í tilkynningunni.
ÚR mun gera allt í sínu valdi til að hnekkja ákvörðun Fiskistofu en takist það ekki áskilur sér félagið rétt til að sækja bætur vegna alls þess tjóns sem félagið og/eða áhöfn Kleifabergs verður fyrir vegna ákvörðunarinnar.
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, segir í tilkynningu að ÚR bindi vonir við við að ráðuneytið grípi til aðgerða. „Við erum vongóð um að ráðuneytið felli ákvörðunina fljótt úr gildi eða fresti réttaráhrifum hennar á meðan endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir. Ákvörðun Fiskistofu er lagalega röng og málsatvik hafa ekki verið rannsökuð. Svipting veiðileyfis í 12 vikur á þessum árstíma leiðir til gríðarlegs fjárhagslegs tjóns. Íslenska ríkið getur orðið skaðabótaskylt gagnvart 52 áhafnarmeðlimum Kleifabergs og væntar kröfur þeirra verða á bilinu 3-400 milljónir króna sem ríkissjóður gæti þurft að greiða, ef ráðuneytið frestar ekki þessari röngu veiðileyfasviptingu.“