Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir að verulega fari að hægja á hækkun fasteignaverðs á næstunni, og að verð muni ekki hækka á þessu ári.
Fjallað er um stöðuna á fasteignamarkaði í nýrri skýrslu, Húsnæðismarkaðuinn á sléttunni.
„Við teljum að ekki séu forsendur til þess að m.v. undirliggjandi efnahagsstærðir að fólksfjölgun muni
halda áfram af sama krafti og undanfarin tvö ár. Samkvæmt spá okkar mun íbúum á íbúð fækka á
hverju ári út spátímann. Raungerist þetta þýðir það að unnið verður á uppsöfnuðum skorti sem ætti að
öllu öðru óbreyttu að hægja á hækkunartakti húsnæðisverðs.,“ segir í skýrslu greiningardeildarinnar um fasteignamarkaðinn.
Ein ástæða þess að bankinn spáir því að nú fari að hægjast um, er að útlánavöxtur muni dragast saman á sama tíma og framboð af íbúðum á markaði muni aukast mikið.
Mikill uppgangur í efnahagslífinu á undanförnum árum hefur skilað sér í meiri fjárfestingu. Í fyrra lánuðu bankarnir u.þ.b. 350 milljarða til heimila og fyrirtækja. „Útlit er fyrir að útlánaaukning bankanna í ár verði töluvert minni og að lánakjör versni. Áhrifa þessa er tekið að gæta í lægri hámarksveðhlutföllum íbúðarlána og versnandi kjörum viðbótarlána,“ segir í skýrslunni.
Spá greiningardeildarinnar gerir ráð fyrir að raunverð muni lækka á árunum 2020 og 2021, þegar framboð af eignum hefur aukist mikið, á sama tíma og eftirspurn hefur minnkað.